Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Betra aðgengi að gögnum á ensku og skjótari afgreiðsla opinberra aðila forgangsmál fyrir alþjóðlega sérfræðinga á Íslandi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, stóð í vikunni fyrir fjölsóttri vinnustofu þar sem rætt var um stöðu alþjóðlegra sérfræðinga á Íslandi og hvar tækifæri liggja til að gera betur í þeim málum.

Síðustu mánuði hefur markviss vinna farið fram innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins í nánu samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið við að kortleggja áskoranir og móta tillögur til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að ráða til sín sérfræðinga frá löndum utan EES, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

„Ef okkur tekst vel til í að greiða aðgang að sérhæfðri þekkingu getum við aukið nýsköpun, hagvöxt, fjölgað störfum og aukið útflutningstekjur,“ sagði Áslaug Arna nýlega er fjórar leiðir voru kynntar fyrir ríkisstjórn sem ætlað er að liðka fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga og auka aðgengi að sérhæfðri þekkingu. 

Kallað eftir skilvirkara kerfi og aðgengi að íslenskukennslu

Fjölbreyttur hópur alþjóðlegra sérfræðinga og annarra hagsmunaaðila sóttu vinnustofuna, t.a.m. alþjóðlegir sérfræðingar frá bæði litlum og stórum fyrirtækjum, rótgrónum og nýrri, ásamt erlendum nemendum á Íslandi og mannauðsstjórum. Tilgangur vinnustofunnar var að ræða ýmis málefni tengd stöðu alþjóðlegra sérfræðinga hér á landi auk þess að öðlast innsýn og fá endurgjöf um hvað megi betur fara til að best nýta þau tækifæri sem felast í greiðu aðgengi að sérhæfðri þekkingu. 

Á vinnustofunni kom fram að alþjóðlegu sérfræðingarnir eru ánægðir með íslenskt heilbrigðiskerfi, gott aðgengi að menntun og leikskólum, starfsöryggi og launakjör ásamt skattahvötum og því öfluga nýsköpunarumhverfi sem byggst hefur upp á Íslandi á liðnum árum.

Skýrari forgangsröðun eftir samtal við hagsmunaaðila

Meðal hugmynda að lausnum sem ræddar voru á vinnufundinum voru betri upplýsingagátt fyrir alþjóðlega sérfræðinga, fjölskyldur þeirra og fyrirtæki, aukið aðgengi að gögnum og upplýsingum um réttindi á ensku og áhersla á hratt, auðvelt og skilvirkt ferli við flutning til landsins og afgreiðslu tilskilinna leyfa. Þá eru gott aðgengi að íslenskukennslu og atvinnuréttindi fyrir maka einnig mikilvægir liðir í að greiða aðgang að sérhæfðri þekkingu á Íslandi með því að gera landið aðlaðandi fyrir alþjóðlega sérfræðinga. 

Eftir samtal við alþjóðlega sérfræðinga og nemendur á Íslandi auk fleiri hagsmunaaðila liggja nú fyrir næstu áherslumál. Með aukinni innsýn inn í þarfir þessa hóps hefur tækifæri skapast til samtals með viðeigandi stofnunum og ráðuneytum til að móta næstu skref og hefja aðgerðir til að liðka fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga til Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum