Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kaupmáttur ráðstöfunartekna enn með mesta móti

Þrátt fyrir samdrátt undanfarna mánuði var kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann meiri á 3. ársfjórðungi þessa árs en nokkru sinni á árunum 2011-2020, ef undan er skilinn 2. ársfjórðungur 2020 þegar stuðningur við heimili vegna heimsfaraldursins stóð sem hæst. Þetta má sjá úr nýjum tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

 

Í tölunum eru vaxtagjöld heimilanna dregin frá tekjum við útreikning ráðstöfunartekna. Þannig er í tölunum tekið tillit til áhrifa vaxtahækkana á heimilin. Af tölunum má ráða að ráðstöfunartekjur séu enn með mesta móti þrátt fyrir vaxtahækkanir og kaupmáttur mikill þrátt fyrir hækkun verðbólgu.

Sterk staða heimilanna er studd af miklum vexti tekna undanfarið. Tekjuvöxturinn er ekki síst drifinn áfram af lækkun atvinnuleysis og launahækkunum. Gera má ráð fyrir að tekjur haldi áfram að vaxa í kjölfar launahækkana sem taka gildi með nýjum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og áframhaldandi aðgerða stjórnvalda til stuðnings viðkvæmum hópum, hækkunar húsnæðisbóta og styrkingar barnabótakerfisins.

Tölur Hagstofunnar benda til þess að þrátt fyrir hækkun vaxta undanfarið séu vaxtagjöld heimilanna enn lág í sögulegu samhengi. Með breytingum á vaxtabótakerfinu sem taka gildi á næsta ári munu fleiri heimili njóta vaxtabóta en áður. Einkaneysla er með mesta móti og jókst um 7% á 3. fjórðungi ársins. Vanskil á lánum hafa haldið áfram að minnka á þessu ári, bæði hjá fyrirtækjum og heimilum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum