Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Utanríkisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áfrýjunarnefnd EUIPO fellst á allar kröfur Íslands

Áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins hefur hafnað öllum kröfum bresku verslanakeðjunnar Iceland Foods Ltd. varðandi notkun á orðmerkinu Iceland. Fyrirtækið getur ekki lengur hindrað að íslensk fyrirtæki auðkenni sig með upprunalandinu við markaðssetningu á EES-svæðinu á vörum sínum og þjónustu.

Málið varðar grundvallarhagsmuni íslenskra fyrirtækja í utanríkisviðskiptum. Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, hafa farið fyrir ógildingarkröfum Íslands á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) frá 2016. Munnlegur málflutningur fyrir áfrýjunarnefndinni fór fram í september sl. Krafa íslenska ríkisins um ógildingu orðmerkisins ICELAND hjá EUIPO frá árinu 2016 byggist á því að vörumerkið uppfylli ekki lagaskilyrði til þess að fást skráð sem vörumerki í Evrópusambandinu.

Árið 2019 féllst Evrópska hugverkastofan á allar kröfur íslenska ríkisins er hún komst að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar á orðmerkinu ICELAND væri ógild í heild sinni. Með úrskurði sínum frá 15. desember sl. staðfestir áfrýjunarnefndin þá niðurstöðu í öllum atriðum. Hægt er að áfrýja niðurstöðunni til Evrópudómstólsins en frestur til þess er til 15. febrúar nk.

„Þessi afdráttarlausa niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar er mjög ánægjuleg þótt málið sé í raun algjörlega fáránlegt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki skiptir höfuðmáli að geta vísað til upprunans ekki síst vegna þess að landið okkar er þekkt fyrir hreinleika og gæði. Það á enginn að geta slegið eign sinni á heiti fullvalda ríkis. “

„Þessi niðurstaða er stór sigur og tryggir þau verðmæti sem felast í því að tengja sig við upprunaland og hið verðmæta vörumerki Ísland,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Það er einnig líklegt að úrskurðurinn hafi áhrif á þróun alþjóðlegs hugverkaréttar og ánægjulegt að Ísland sé leiðandi í slíkri vegferð.“

Íslensk stjórnvöld og málsaðilar lögðu áherslu á að efnisleg niðurstaða fengist í umfjöllun áfrýjunarnefndarinnar þar sem um fordæmalaust mál væri að ræða fyrir íslenska hagsmuni en ekki er vitað um nein dæmi um samsvarandi notkun á landaheiti í vörumerkjarétti. Viðræður á milli málsaðila hafa farið fram nokkrum sinnum í gegnum árin í því skyni að ræða sáttagrundvöll en hafa ekki skilað ásættanlegri niðurstöðu.

Ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar varðandi orðmerki
Ákvörðun áfryjunarnefndarinnar varðandi lógó

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum