Hoppa yfir valmynd
30. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Árangur af framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021

Lokagreinargerð liggur nú fyrir um árangur af stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021. Alls er 80% aðgerðanna nú lokið eða þær komnar í farveg, það er 32 af 40.


Stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021
var samþykkt sem þingsályktunartillaga á Alþingi vorið 2017. Leiðarstefið í henni var að full mannréttindi fatlaðs fólks yrðu efld, varin og tryggð til jafns við aðra og skilyrði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Framkvæmdaáætlunin innihélt fjölbreyttar aðgerðir á sjö málefnasviðum sem sneru að aðgengismálum, atvinnu, heilsu, ímynd og fræðslu, menntun, sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks og þróun þjónustu.

Á tímabilinu voru ýmsar rannsóknir unnar og skýrslur gefnar út sem styðja við framangreind markmið og aðgerðir. Í heildina var rúmum 295 milljónum króna varið til aðgerða í framkvæmdaáætluninni og önnur verkefni þeim tengdum.

Fjölbreyttar aðgerðir

Á tímabilinu var ráðist í aðgerðir í samstarfi við fjölmarga aðila sem búa yfir viðamikilli reynslu og þekkingu á þessu sviði. Aðgerðir sneru til að mynda að bættu aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu. Sveitarfélög voru hvött til þess að skipa aðgengisfulltrúa og hafa í kringum 50 gert það nú þegar. Sett var á fót miðstöð fyrir auðlesið mál (audlesid.is) og úttekt gerð á almenningssamgöngum um land allt.

Mikil áhersla var lögð á heilsueflingu fatlaðs fólks og meðal annars ráðist í verkefni sem miða að því að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi. Geðheilsuteymum var fjölgað á landsvísu og fræðsluefni um málefni fatlaðs fólks unnið fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu.

Þá var áhersla lögð á að fjölga atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk. Gallup vann rannsókn þar sem kannað var hvernig almennur vinnumarkaður og opinberar stofnanir mættu ólíkum þörfum fatlaðs starfsfólks og hvaða hindranir stæðu í vegi fyrir atvinnuþátttöku þess. Vinnumálastofnun fékk einnig stuðning fyrir stöðugildi sérfræðings með þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og farið var í sérstakt kynningarátak um atvinnutækifæri fatlaðs fólks með skerta starfsgetu. Það var samstarfsverkefni Þroskahjálpar og Samtaka atvinnulífsins.

Ávinningur metinn með rannsóknum

Einn þáttur í því að meta ávinning af framkvæmdaáætluninni var stöðumat sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands var falið að framkvæma. Önnur rannsóknin var gerð við upphaf tímabilsins og hin við lok þess. Markmiðið var að meta þær breytingar á þjónustu og aðstæðum fatlaðs fólks sem hefðu orðið.

Báðar rannsóknirnar voru lagðar fyrir fullorðna þjónustunotendur og forsjáraðila fatlaðra barna til að fá upplýsingar um reynslu þeirra af aðgengismálum og þjónustu sveitarfélaga. Einnig voru lagðar spurningar fyrir úrtak almennings í því skyni að kanna viðhorf til þátttöku fatlaðs fólks á mismunandi sviðum þjóðlífsins og þekkingu almennings á aðstæðum þess og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Meðal þess sem fram kom í svörum forsjáraðila fatlaðra barna var að fleiri börn fengu einstaklingsbundna áætlun en áður og hún var oftar unnin í samráði við fjölskylduna. Þá hafði hlutfall barna sem fengið hafði skipaðan málstjóra aukist á milli ára og farið úr 37% og upp í 60%.

Þar sem framkvæmdaáætlunin var afar viðamikil fylgja henni fjölmargar aðrar rannsóknir og skýrslur. Heildaryfirlit yfir öll gögnin má nálgast hér:

Staða aðgerða í skýrslunni miðast við maí 2022 en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar í málaflokknum. Til að mynda er vinna hafin við gerð landsáætlunar um innleiðingu á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landsáætlunin mun marka tímamót en hún er liður í lögfestingu samningsins sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks mun falla inn í landsáætlunina sem verður í framhaldinu meginverkfæri stjórnvalda við heildstæða stefnumótun í málaflokknum.

Einnig má nefna að þróaður hefur verið stafrænn talsmannagrunnur sem er liður í að ryðja úr vegi stafrænum hindrunum sem fatlað fólk stendur gjarnan frammi fyrir. Lög hafa enn fremur verið samþykkt á Alþingi þar sem samningum um NPA, notendastýrða persónulega aðstoð, er fjölgað verulega: Árið 2023 er gert ráð fyrir að samningum fjölgi um ríflega 50%.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum