Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur um happdrættismál skilar skýrslu

Í mars 2021 setti þáverandi dómsmálaráðherra á fót starfshóp sem ætlað var að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála. Í skipunarbréfi ráðherra sagði að starfshópnum væri ætlað að gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum og reglugerðum um happdrætti, teldust þær nauðsynlegar, og eftir atvikum greina fjárþörf til þess að tryggja að mögulegar breytingar gætu átt sér stað.

Ekki náðist samstaða innan starfshópsins um efni skýrslunnar og þeirra tillagna sem honum var falið að leggja fyrir ráðherra. Standa formaður og starfsmaður starfshópsins því einir að skýrslunni og þeim tillögum sem þar eru settar fram. Áherslur og tillögur annarra sjálfstæðra fulltrúa í starfshópnum koma fram í sérstökum álitum og samantektum þeirra.

Í skýrslu formanns koma fram tillögur að réttarbótum á sviði happdrættismála, sem eru þessar helstar í stuttu máli:

  • Að ráðist verði í heildarendurskoðun núgildandi laga á sviði happdrættismála

  • Að innleidd verði notkun spilakorta að norrænni fyrirmynd við peningaspilun

  • Að komið verði lögum yfir ólöglega netspilun

  • Að núverandi sérleyfishöfum verði heimilað að starfa á netinu

  • Að leyfisveitingar verði færðar frá Alþingi og til stjórnvalda. Jafnframt er lagt til að eftirlit með markaðnum verði stóreflt frá því sem nú er

  • Að leyfishafar efli samstarf á sviði forvarna gegn spilavanda og spilafíkn

  • Að komið verði á fót forvarnarsjóði í því skyni að stórefla forvarnir

  • Að ráðist verði í endurskoðun á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Tillögur og álit annarra fulltrúa sem sæti áttu í starfshópnum fylgja heildarskýrslunni.

Er þar annars vegar um að ræða sérálit Samtaka áhugafólks um spilafíkn við tillögur formanns og starfsmanns. Hins vegar er um að ræða tillögur og samantekt fulltrúa þeirra happdrættisfyrirtækja sem nú starfa á íslenskum happdrættismarkaði en þeir eru Íslandsspil, Happdrætti Háskóla Íslands, Happdrætti SÍBS, Happdrætti DAS, Getspá og Getraunir. Í því bréfi koma fram margvíslegar aðfinnslur hagsmunaaðilanna við efni framangreindrar skýrslu formannsins og þeirra tillagna sem þar koma fram.

Dómsmálaráðuneytið hefur nú tekið við skýrslunni og mun vinna hefjast við að rýna efni hennar og skoða hvert framhald málsins verður.

Skýrsla starfshópsins á pfd-sniði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum