Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Háskólarnir taka höndum saman til að auka gæði náms og bæta þjónustu við námsmenn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt fulltrúum háskólanna. - myndGolli

Verkefnin 25 sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynnti nýlega að hlytu styrki til aukins samstarfs háskóla koma frá öllum háskólum landsins. Styrkirnir, sem samtals nema tæplega 1,2 milljörðum króna að þessu sinni, renna þannig til margvíslegra samstarfsverkefna þar sem allir háskólarnir sjö koma að 6 til 20 verkefnum hver. Þá er hver og einn háskólanna í forsvari fyrir a.m.k. eitt samstarfsverkefni. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum á þennan hátt verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður. 

,,Við erum fámenn þjóð með marga háskóla. En það gefur okkur líka tækifæri til sérstöðu í stærð, rekstrarformi og staðsetningu,” sagði Áslaug Arna í kynningu á niðurstöðum verkefnisins Samstarf háskóla. ,,Í okkar litla samfélagi er samstarf forsenda þess að við getum boðið upp á háskólanám á heimsmælikvarða. Samstarf háskóla er vettvangur til að gera hugmyndir sem kvikna innan háskólasamfélagsins að veruleika, auka gæði náms hér á landi sem og samkeppnishæfni skólanna.”

Samstarfsvilji allra háskólanna

Háskóli Íslands (HÍ) er aðili að 20 af 25 verkefnum sem hljóta styrk sem sýnir ríkan samstarfsvilja hjá þessum lang stærsta skóla landsins. Þá kemur Háskólinn á Akureyri (HA) fast á hæla hans í fjölda verkefna, en HA er aðili að 19 verkefnum. Háskólinn í Reykjavík (HR) er aðili að 16 verkefnum sem hljóta styrk, Landbúnaðarháskóli Íslands (LBHÍ) að 9, Háskólinn á Hólum að 8, Háskólinn á Bifröst (HB) að 7 og Listaháskóli Íslands (LHÍ) að 6 verkefnum.

HÍ leiðir flest styrktra verkefna, alls 11 verkefni. Þar af eru 3 verkefni sem allir háskólarnir koma að og eitt verkefni þar sem allir opinberu háskólarnir, auk Háskólans á Bifröst, eru aðilar að. Athygli vekur að minnsti háskóli landsins, Háskólinn á Hólum, leiðir 3 verkefni sem saman valda því að skólinn fær næst hæstu upphæð úr úthlutuninni sem forsprakki samstarfsverkefnis.

Samstarf háskóla í þágu samfélags

Þrjár megináherslur voru hafðar að leiðarljósi við mat umsókna. Í fyrsta lagi var litið möguleika á bættri stjórnsýslu, auknum gæðum náms og betri þjónustu við námsmenn í kjölfar samstarfs. Í öðru lagi var áhersla lögð á að háskólarnir vinni saman í þágu samfélagsins og loks að samstarfið leiði til öflugri rannsókna, nýsköpunar og miðlun þekkingar.

Tólf áherslumál falla undir megináherslurnar þrjár og endurspeglast þau í þeim samstarfsverkefnum sem styrkt eru. T.a.m. hafa verkefnin markmið um að bregðast við mönnunarvanda í atvinnulífinu, svo sem í heilbrigðiskerfinu, hugverkaiðnaði, fiskeldi og leikskólum. Þá eru margar umsóknir tengdar nýjum námsleiðum sem mæta þörfum nútímans, til dæmis með eflingu fjarnáms og fjölbreyttari tækifæra á meistarastigi.

Meirihluti styrktra samstarfsverkefna styður á einn eða annan hátt við áherslur á betra framboð náms óháð staðsetningu, aukin gæði háskólanáms hér á landi og eflingu STEAM greina, sem eru vísinda-, tækni-, verkfræði-, list- og stærðfræðigreinar. Þá er nýting rannsóknainnviða og opin vísindi, sjálfbærni og bætt stjórnsýsla og stoðþjónusta í háskólaumhverfinu ofarlega á lista.

Áherslurnar og fjöldi verkefna sem undir þær falla má sjá hér fyrir neðan:

Aukin tækifæri fyrir nemendur með samstarfi

Allir háskólarnir hyggjast taka höndum saman í þremur verkefnum sem hlutu styrk úr Samstarfi háskóla að þessu sinni, en áætlað er að samskonar úthlutun fari fram síðar á árinu. Þannig eru allir skólarnir aðilar að verkefni sem felst í aukinni starfsþróun háskólakennara til að auka gæði kennslu í stafrænu samfélagi og verkefni sem gerir nemendum kleift að taka námskeið í meistaranámi við marga skóla samtímis, bæði hérlendis og við erlenda háskóla. Í þessu felst að nemendur geti sniðið nám að sínum þörfum og þeim hröðu samfélagsbreytum sem eiga sér stað. Háskólarnir sjö fá samanlagt 35 m.kr. til að undirbúa verkefnið í samvinnu við atvinnulífið, sem opnar einnig á aukna möguleika þegar kemur að námi óháð staðsetningu, sveigjanleika og gæðum náms fyrir meistaranema.

Annað samstarfsverkefni allra háskólanna, auk Landsbókasafns og Rannís, snýr að samþættingu og þróun IRIS, upplýsingagátt rannsókna, sem ýtir undir jákvæða framþróun í nýtingu rannsóknainnviða. Þá koma allir opinberu háskólarnir saman, auk HB og LHÍ, til að þróa Uglu til að bæta þjónustu við háskólanema.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum