Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fyrsta deiglan hefur starfsemi

Bjarni Benediktsson flutti ávarp þegar deiglan hóf starfsemi. - mynd

Fyrsta deiglan, þar sem stofnanir samnýta nútímalega aðstöðu með hagræði og samlegð að leiðarljósi, hóf starfsemi í Borgartúni 26 á dögunum. Þá fluttu Ríkiskaup og Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) starfsemi sína þangað í 1250 fermetra aðstöðu þar sem yfir 100 starfsmenn samnýta. Með þessu fækkar heildarfermetrum stofnananna um 36% frá því að þær voru hvor í sínu húsnæðinu.

Deiglan er brautryðjandi verkefni og fyrirmynd fyrir nýtingu húsnæðis hjá ríkinu hvað varðar nútímalegt og hagkvæmt vinnuumumhverfi þvert á stofnanir, sbr. stefnu ráðuneytisins í húsnæðismálum ríkisins. Gert er ráð fyrir að með tímanum fjölgi deiglum, þar sem tvær eða fleiri stofnanir deila vinnurými. Meðal ávinnings sem vænta má er lækkun á meðalkostnaði aðstöðu, betri nýting flatarmáls og lækkun rekstrarkostnaðar

Gert er ráð fyrir að deiglur hafi í för með sér fjölbreytt samnýtanleg og verkefnamiðuð svæði, sem m.a. leiði til aukinnar skilvirkni og ánægju með vinnuaðstöðu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var viðstaddur þegar starfsemi Ríkiskaupa og FSRE í sameiginlegu húsnæði var ýtt úr vör. Ráðherra kvaðst spenntur fyrir að fylgjast með þeim jákvæðu áhrifum sem sameiginleg aðstaða hafi á starfsemi stofnananna tveggja. „En stóru fréttirnar eru auðvitað að Deiglan er brautryðjandi verkefni, sem á að vera fyrirmynd fyrir aðra í stofnanakerfinu okkar,“ sagði Bjarni.

Það er stefna ríkisins að leigja skrifstofuhúsnæði á almennum markaði en byggja eða eiga sérhæft húsnæði á borð við sjúkrahús, fangelsi og skóla.

„Þessi deigla fellur vel að þessu og sýnir líka hvernig skapa má betra vinnuumhverfi í færri fermetrum fyrir færri krónur en áður hefur þekkst,“ sagði Bjarni og vísaði til hraðra samfélagsbreytinga, breyttra þarfa nýrra kynslóða og stafvæðingar sem kalli á sveigjanlegt stofnanakerfi.

„Einn liður í því er að húsnæðismál ríkisins búi yfir nauðsynlegum sveigjanleika til að geta aðlagast hratt breyttu skipulagi. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að einfalda stofnanakerfið sem getur þýtt að stofnanir sameinast í auknum mæli, en einnig að þær sameinist um stoðþjónustu - og geti með þeim hætti einbeitt sér frekar að sínum kjarnaverkefnum.“

Bjarni ásamt starfsfólki FSRE og Ríkiskaupa. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum