Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2023 Innviðaráðuneytið

Grænbók um sveitarstjórnarmál birt að loknu opnu samráði

Grænbók á málefnasviði sveitarfélaga hefur verið gefin út að loknu opnu samráði. Með henni er lagður grunnur að endurskoðaðri stefnu ríkisins á málefnasviði sveitarfélaganna til næstu 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.  

Grænbók í sveitarstjórnarmálum var í opinni samráðsgátt stjórnvalda frá 25. nóvember 2022 til 4. janúar 2023. Alls bárust sextán umsagnir, tíu frá sveitarfélögum, fimm frá hagsmunasamtökum og ein frá einstaklingi. Gerð er grein fyrir umsögnunum og viðbrögðum við þeim í samantekt í samráðsgátt stjórnavalda. 

Grænbók með stöðumati og valkostum sveitarfélaganna til framtíðar er unnin á grundvelli sveitarstjórnarlaga og reglugerðar um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga. Stefnumótunin felur í sér endurskoðun á fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun á sama sviði fyrir árin 2019-2033.

Aflað var efnis frá sveitarfélögum í landinu með spurningarlista um stöðu, áskoranir og tækifæri þeirra á sviði sveitarstjórnar-, skipulags- og húsnæðismála sumarið 2022 . Alls bárust svör frá 35 af 64 sveitarfélögum eða tæpum 55% allra sveitarfélaga í landinu. Á bakvið svörin stóðu 335.100 íbúar eða hátt í 87% þjóðarinnar. 

Með sama hætti var leitað sjónarmiða sveitarstjórnarfólks, íbúa og annarra hagsmunaaðila gagnvart öllum málaflokkum ráðuneytisins á átta samráðsfundum undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman í október 2022. Fundirnir voru haldnir í gegnum fjarfundabúnað til að stuðla að opnu aðgengi sem flestra, óháð búsetu. Skráðir þátttakendur voru ríflega 360 talsins, sveitarstjórnarfólk, starfsfólk landshlutasamtaka og annarra hagsmunasamtaka og íbúar af landinu öllu. Afrakstur samráðsins felur í sér dýrmætt framlag til stefnumótunar í öllum málaflokkum ráðuneytisins. 

Markmið grænbókarinnar er að hvetja til umræðu um stöðumat, áskoranir og tækifæri á sveitarstjórnarstiginu. Næsta skref stefnumótunarinnar felst í því að móta stefnuskjal eða svokallaða hvítbók á grundvelli innihalds grænbókarinnar. Drög að hvítbókinni verða birt í samráðsgátt stjórnvalda innan skamms.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum