Hoppa yfir valmynd
2. mars 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Meira og betra verknám

Frá morgunverðarfundi mennta- og barnamálaráðherra - mynd

Auka þarf verulega námsaðstöðu til starfsnáms í framhaldsskólum og móta aðgerðaáætlun til draga úr húsnæðisnotkun í bóknámi út frá spá um þróun á fjölda nemenda í framhaldsskólum til ársins 2033. Þetta er niðurstaða greinargerðar um húsnæðisþörf í framhaldsskólum næstu tíu árin sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti í morgun. Mennta- og barnamálaráðuneytið vinnur nú að áætlun um hvernig brugðist verði við þessum breytingum á næstu árum.

Gera má ráð fyrir að nemendum í starfsnámi fjölgi um 1.5001.800 ársnemendur eða 18% á næstu 5–6 árum. Á sama tíma fækkar nemendum í bóknámi um 510 eða 3%. Frá 2028–2033 má búast við að fjöldi nemenda í starfsnámi nái jöfnuði en að það fækki um ríflega 2.000 nemendur eða tæp 13% í bóknámi.

Spáin byggir í grunninn á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands og Byggðastofnunar vegna einstakra landshluta. Í henni eru sett fram tölusett markmið um skólasókn í framhaldsskólum eftir aldri nemenda á grundvelli menntastefnu 2020–2030 og markmiða ríkisstjórnarinnar um aukið vægi starfsnáms á komandi árum.

„Fleiri og fleiri sækja í verknám sem er fagnaðarefni enda þörfin mikil. Nú höfum við kortlagt þróunina sem sýnir að aðsóknin muni halda áfram að aukast næsta áratuginn. Stækkun ýmissa skóla er í farvegi en á sama tíma þurfum við að vinna áætlun um hvernig við mætum fækkunum í bóknámi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Ljóst er að bregðast þarf við þessari þróun. Ein meginástæða þess að starfsmenntaskólarnir hafa hafnað umsóknum nemenda í starfsnám á undanförnum árum er skortur á viðeigandi húsnæði auk skorts á fagmenntuðum kennurum. Auka þarf húsnæði um 16.000–19.500 fermetra til að mæta fjölgun starfsnámsnemenda á næstu árum. Mest verður þessi þörf á höfuðborgarsvæðinu, eða á bilinu 10.000–13.000 fm, á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Jafnframt er ljóst að draga þarf úr húsnæði til bóknáms vegna fyrirsjáanlegrar fækkunar nemenda til að losa bundið fé í vannýttu húsnæði.

Pallborðsumræður

Unnið hefur verið að stækkun starfsnámsaðstöðu undanfarin misseri samkvæmt ríkisstjórnarsáttmála. Bygging nýs og stærri Tækniskóla í Hafnarfirði er í burðarliðnum og í janúar var gengið frá samningi um frekari stækkun á starfsnámsaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem nemur alls 2.400 fm. Þá hefur mennta- og barnamálaráðuneytið falið Borgarholtsskóla að setja af stað nýja braut í pípulögnum.

Ráðast þarf í umfangsmiklar framkvæmdir til viðbótar víðsvegar um landið til að mæta þörfinni og verður það ekki gert á einu bretti. Því gerir greinargerðin áætlun til lengri tíma og þótti hæfilegt að horfa til næstu 10 ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum