Hoppa yfir valmynd
12. maí 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Farsæld barna – diplómanám

Mynd: Kristinn Ingvarsson - mynd

Fyrsti nemendahópur í diplómanámi um farsæld barna hefur lokið námi í samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands sem hófst síðasta haust. Alls hófu 124 nemendur námið sem var hið fyrsta sinnar tegundar og þátttakan vonum framar. Um eins árs diplómanám er að ræða við Háskóla Íslands. Námið hefst að nýju í haust og er opið fyrir umsóknir til 5. júní.

Mennta- og barnamálaráðherra og Háskóli Íslands gerðu árið 2021 samning um stuðning HÍ við innleiðingu á lögum um samþættingu þjónustu við börn og fjölskyldur. Samningurinn er annars vegar um það að koma á fót og veita umsjón nýju þverfaglegu diplómanámi á sviði farsældar barna og hins vegar að stofna og halda utan um Samstarfsnet um rannsóknir á farsæld barna á Íslandi.

Námið er eins árs þverfaglegt fjarnám og er kennslu streymt í rauntíma einu sinni í viku auk þess sem nemendur mæta í fjórar tveggja daga staðlotur á kennsluárinu.

Nemendur voru með fjölbreytta menntun og reynslu að baki, komu víðs vegar að af landinu og voru allir í starfi með börnum eða við þjónustu sem snertir málefni barna.

,,Það er stór og mikill áfangi í innleiðingu farsældarlaganna að fyrsti hópurinn hafi útskrifast með diplómu á sviði farsældar. Hópurinn samanstendur af fólki sem hefur sinn grunn úr hinum mismunandi fagstéttum, en sameinast um farsæld barna,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Meginhlutverk farsældarlaganna er einmitt að allir þjónustuveitendur í umhverfi barns vinni saman að málefnum barnsins. Þessi sameiginlegi flötur margra einstaklinga úr ólíkum kerfum mun liðka fyrir því að slíkt samstarf gangi vel. Til hamingju með útskriftina frumkvöðlar!“


Starfsvettvangur, starfsaldur, aldur og búseta nemendahóps

Samstarf kennara og nemenda sem hófu námið sl. haust hefur gagnast við mótun námsleiðarinnar og mun án efa reynast dýrmætt við innleiðingu farsældarlaganna. Þessir fyrstu nemendur eru frumkvöðlar og þess má vænta að þeir verði boðberar farsældar og samþættingar í málefnum barna og fjölskyldna um allt land.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum