Hoppa yfir valmynd
12. maí 2023 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Leiðtogafundur Evrópuráðsins framundan í Reykjavík

Leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram í Hörpu. - mynd

Fjórði leiðtogafundur í sögu Evrópuráðsins fer fram í Reykjavík í næstu viku. Fyrir fundinum liggur að samþykkja formlega gerð sérstakrar skrár vegna þess tjóns sem innrás Rússlands hefur valdið Úkraínu og árétta mikilvægi þeirra gilda sem Evrópuráðið stendur vörð um. Mikill viðbúnaður er vegna fundarins og má búast við talsverðri röskun á umferð meðan hann stendur yfir. 

Leiðtogafundurinn fer fram dagana 16.-17. maí en ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti í nóvember í fyrra að leiðtogarnir skyldu koma saman í Reykjavík þar sem Ísland fer með formennsku í ráðinu. Tilefnið er sú alvarlega staða sem ríkir í álfunni vegna innrásar Rússlands í Úkraínu og að tryggja að ráðið geti áfram unnið að sínum grunngildum innan álfunnar: lýðræði, mannréttindum og réttarríki.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, eru í hlutverki gestgjafa leiðtogafundarins. Það kemur því í þeirra hlut að taka á móti leiðtogum aðildarríkjanna sem sækja fundinn. 

„Evrópuráðið hefur verið leiðandi stofnun á sviði mannréttinda og lýðræðis. Það hefur í störfum sínum barist fyrir tjáningarfrelsi, jafnrétti kynjanna og réttindum barna og sýnt mikla framsýni þegar kemur að stærstu áskorunum samtímans. Ég tel að þessi fjórði leiðtogafundur í sögu ráðsins verði sögulegur en þarna munum við bæði hafa tækifæri til að taka markviss skref til að kalla Rússa til ábyrgðar eftir innrás þeirra í Úkraínu en eins ræða stöðu mannréttinda og lýðræðis á umbrotatímum þar sem ekki aðeins geisar stríð í Evrópu heldur stöndum við einnig frammi fyrir loftslagsvá sem ógnar okkur öllum og erum stödd í miðri tæknibyltingu sem getur bæði haft jákvæð áhrif á líf okkar allra en getur líka þróast með ófyrirsjáanlegum hætti,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

„Ísland tekur ábyrgð sína alvarlega og með því að halda þennan sögulega fund leggjum við okkar af mörkum í þágu lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins. Miklar vonir eru bundnar við að niðurstaða fundarins skipti raunverulegu máli fyrir Úkraínu og að tekin verði mikilvæg skref til þess að ábyrgðarskylda vegna brota Rússlands í Úkraínu verði tryggð,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Á leiðtogafundinum í Reykjavík er stefnt að því að koma á fót alþjóðlegri tjónaskrá þar sem þau sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásarinnar fá það skráð með það að augnamiði að það verði síðar bætt. Sömuleiðis verður leitað leiða til að draga þau til ábyrgðar sem framið hafa glæpi í Úkraínu. Þá eru vonir bundnar við að frá fundinum komi skýrar leiðbeiningar til aðildaríkja um hvernig þau geti stutt þar við lýðræði. Viðbrögð við ýmsum áskorunum samtímans og framtíðar, til dæmis þegar litið er til mannréttinda, umhverfismála, gervigreindar og stafrænnar þróunar verða einnig til umræðu á fundinum.

Fundurinn fer fram í Hörpu og skiptist dagskráin í formlega opnun, hringborðsumræður um mismunandi málefni sem tengjast meðal annars niðurstöðuskjali fundarins, vinnukvöldverð sem tileinkaður er Úkraínu og almennar umræður þar sem fulltrúar ríkja flytja sínar ræður. Leiðtogafundinum lýkur með því að Ísland færir Lettlandi formennskuna í Evrópuráðinu með formlegum hætti. Lettland er næsta aðildarríki Evrópuráðsins til að gegna formennsku í ráðinu um sex mánaða skeið.

Til viðbótar við leiðtoga aðildarríkjanna 46 hefur fulltrúum áheyrnarríkja og helstu alþjóðastofnana verið boðin þátttaka. Gert er ráð fyrir að hátt í eitt þúsund manns komi hingað til lands til að taka þátt í fundinum en auk þess hefur á þriðja hundrað erlendra blaða- og fréttamanna boðað komu sína. 

Sökum umfangs fundarins og fjölda gesta má ætla að hann hafi í för með sér talsverða röskun á daglegu lífi íbúa höfuðborgarsvæðisins. Af öryggisástæðum verða götur í kringum Hörpu lokaðar fyrir umferð ökutækja á meðan á fundinum stendur en hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Þá má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda til og frá flugvöllum, sérstaklega síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum. Nánari upplýsingar um lokanir er að finna hér á vef Stjórnarráðsins.

„Þessi leiðtogafundur er stærsti alþjóðlegi viðburður sem Ísland hefur tekist á hendur. Fjöldi fólks hefur tekið þátt í undirbúningnum til að fundurinn geti gengið sem best fyrir sig.  Við munum öll leggja okkar af mörkum til að fundurinn megi verða árangursríkur fyrir Evrópu alla,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

„Við gerum okkur fulla grein fyrir þeim óþægindum sem fundurinn á eftir að valda en um leið verðum við alls staðar vör við mikla jákvæðni og mikinn metnað fyrir að framkvæmd þessa mikilvæga verkefnis verði okkur öllum til sóma. Við erum afar þakklát fyrir þessa góðu samstöðu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 


Formennska Íslands í Evrópuráðinu

Ísland tók formlega við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022. Helsta markmið formennskunnar hefur verið að efla grundvallargildi Evrópuráðsins - lýðræði, réttarríkið og mannréttindi. Þar að auki eru formennskuáherslur Íslands umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti.

Þetta er í þriðja sinn sem Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu frá inngöngu árið 1950 en áður leiddi Ísland starfsemina á árunum 1955 og 1999. Formennskunni lýkur formlega með leiðtogafundinum í Reykjavík sem forsætis- og utanríkisráðherra boða til 16.-17. maí nk. Um er að ræða fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins frá upphafi. Hann verður fjölmennasti leiðtogafundur og ráðherrafundur sem haldinn hefur verið á Íslandi.

Nánari upplýsingar um formennsku Íslands í Evrópuráðinu má finna í formennskubæklingi Íslands.

Um Evrópuráðið

46 ríki með um 700 milljónir íbúa eiga aðild að Evrópuráðinu (e. Council of Europe, CoE). Markmið ráðsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríki í álfunni, og jafnframt að efla lífsgæði Evrópubúa. Evrópuráðið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, m.a. með það að markmiði að stuðla að stöðugleika og koma með því í veg fyrir annað stríð í álfunni. Evrópuráðið vinnur á grundvelli alþjóðasamninga sem gerðir eru á vettvangi ráðsins. Ráðið vinnur m.a. að mannréttindamálum, lýðræðismálum, réttarfarsmálum, jafnrétti, tjáningarfrelsi, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum og mennta- og menningarmálum. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um 200 alþjóðasamninga á ýmsum sviðum sem hafa jafnframt haft áhrif í öðrum heimshlutum. Mannréttindadómstóll Evrópu, sem er ein af lykilstofnunum á sviði mannréttinda í heiminum, framfylgir mannréttindasáttmála Evrópu.

Nánar má lesa um leiðtogafundinn hér á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum