Hoppa yfir valmynd
13. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Vel heppnaðri ráðstefnu IDAHOT+ Forum lokið

Vel heppnaðri ráðstefnu IDAHOT+ Forum lokið - myndUtanríkisráðuneytið

Árlegri ráðstefnu IDAHOT+ Forum lauk í Hörpu í gær en um er að ræða einn mikilvægasta vettvang hinsegin málefna í Evrópu. Ráðstefnan var liður í formennsku Íslands Evrópuráðinu sem lýkur á leiðtogafundinum í næstu viku. Utanríkisráðherra brýndi í ávarpi sínu komandi formennskuríki til að láta sig málefni hinsegin fólks sérstaklega varða.

Á ráðstefnu IDAHOT+ Forum komu saman 140 leiðandi aðilar á sviði hinsegin málefna, fulltrúar stjórnvalda þrjátíu landa, stofnana á borð við Evrópuráðið og Evrópusambandið og frjálsra félagasamtaka og baráttufólks til að ræða bæði árangur og áskoranir undanfarinna missera. Fundurinn fer fram á hverju ári í kringum 17. maí, alþjóðadag gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki (IDAHOT). Að þessu sinni fór viðburðurinn fram á Íslandi í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti opnunarávarp þar sem hún brýndi fyrir Lettlandi, sem tekur við formennskukeflinu í Evrópuráðinu á leiðtogafundinum í næstu viku, að setja málefni hinsegin fólks áfram á oddinn. Sá árangur sem áunnist hefði í þessum efnum hefði ekki komið af sjálfu sér og nú væru blikur á lofti þegar kæmi að réttindum hinsegin fólks. „Engin mannréttindi eru meiri grundvallarréttindi heldur en rétturinn til þess að vera maður sjálfur og að fá að elska þann sem maður kýs. Samkomur á borð við IDAHOT+ Forum blása mér þá von í brjósti að þrátt fyrir að baráttunni fyrir jafnrétti og mannréttindum ljúki aldrei sigri samt ástin að lokum,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpinu.

Helstu viðfangefni IDAHOT+ Forum að þessu sinni voru áreitni og ofbeldi vegna kyntjáningar, réttindi intersex fólks, mannréttindavernd hinsegin fólks í hættu og bestu starfsvenjur til að vinna gegn hatursorðræðu í garð LGBTI-ungmenna og ofbeldi í skólum. Auk utanríkisráðherra tóku forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra þátt í fundinum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, svo og varaframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, jafnréttismálastjóri Evrópusambandsins og framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Þá voru á fundinum kynnt annars vegar regnbogakort Evrópusamtaka hinsegin fólks (e. ILGA Europe) sem sýnir stöðu og réttindi hinsegin fólks í álfunni og hins vegar réttindakort trans fólks í Evrópu.

Á meðal þess sem hæst hefur borið hvað varðar málefni hinsegin fólks í formennsku Íslands í Evrópuráðinu er þátttaka forsætisráðherra í ráðstefnu sem fram fór í janúar um réttindi intersex fólks. Þá tók utanríkisráðherra þátt í „Lesbian Visibility Week“ í Strassborg í apríl.

  • Vel heppnaðri ráðstefnu IDAHOT+ Forum lokið - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum