Hoppa yfir valmynd
22. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Formennsku Íslands í Evrópuráðinu lokið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra afhendir Edgar Rinkēvičs útskorinn fundarhamar eftir listakonuna Sigríði Kristjánsdóttur til marks um að formennsku Íslands í Evrópuráðinu sé lokið og nýtt formennskutímabil undir stjórn Lettlands hafið. - mynd

Leiðtogafundur Evrópuráðsins í Reykjavík markaði lok hálfs árs formennsku Íslands í ráðinu. Lettland hefur nú tekið við formennskukeflinu. 

„Frá því við tókum við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember síðastliðnum höfum við tekið hlutverk okkar sem formennskuríki alvarlega. Stærsta verkefnið var að standa vörð um og efla grunngildi Evrópuráðsins, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið og ég er afar stolt af framlagi Íslands til að mynda við vinnslu mikilvægra ályktana í þágu Úkraínu og lýðræðis sem samþykktar voru á leiðtogafundinum í síðustu viku,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu af Írum á fundi ráðherranefndarinnar í Strassborg í nóvember í fyrra, í skugga innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu. Auk þess að leggja af mörkum í þágu Úkraínu var helsta markmið íslensku formennskunnar að efla og standa vörð um grundvallargildi Evrópuráðsins - lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Í formennsku Íslands var einnig lögð sérstök áhersla á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna, og jafnrétti.

Formennskutíð Íslands hefur verið viðburðarík og ýmis málefni sett á dagskrá í Strassborg og Reykjavík og víðar sem hluti af formennskuáætlun Íslands. Efling grunngilda Evrópuráðsins og aðgerðir til stuðnings Úkraínu hafa einkennt formennsku Íslands og voru jafnframt þungamiðja leiðtogafundarins í Reykjavík. Auk þess má nefna viðburði sem snúa að rétti til heilnæms og sjálfbærs umhverfs, viðburði um málefni barna og ungmenna og kynningu á íslenskum lausnum í málaflokknum (Barnahús) svo fátt eitt sé nefnt. Ísland setti jafnframt jafnrétti og réttindi hinsegin fólks á oddinn og var gestgjafi IDAHOT+ Forum fyrr í mánuðinum sem er einn mikilvægasti vettvangur hinsegin málefna í Evrópu. 

Að lokum ber að nefna fjölbreytta og yfirgripsmikla menningardagskrá sem Ísland hefur staðið fyrir í Strassborg undanfarna sex mánuði. Lögð hefur verið áhersla á að kynna fyrir borgarbúum Strassborgar íslenska tónlist, bókmenntir, kvikmyndir og barnamenningu svo eitthvað sé nefnt. 

Lettland hefur nú tekið við formennsku í Evrópuráðinu. Þetta var þriðja formennska Íslands frá inngöngu þess í ráðið árið 1950, þær fyrri voru árið 1955 og 1999.

Um Evrópuráðið

46 ríki með um 700 milljónir íbúa eiga aðild að Evrópuráðinu (e. Council of Europe, CoE). Markmið ráðsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríki í álfunni, og jafnframt að efla lífsgæði Evrópubúa. Evrópuráðið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, m.a. með það að markmiði að stuðla að stöðugleika og koma með því í veg fyrir annað stríð í álfunni. Evrópuráðið vinnur á grundvelli alþjóðasamninga sem gerðir eru á vettvangi ráðsins. Ráðið vinnur m.a. að mannréttindamálum, lýðræðismálum, réttarfarsmálum, jafnrétti, tjáningarfrelsi, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum og mennta- og menningarmálum. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um 200 alþjóðasamninga á ýmsum sviðum sem hafa jafnframt haft áhrif í öðrum heimshlutum. Mannréttindadómstóll Evrópu, sem er ein af lykilstofnunum á sviði mannréttinda í heiminum, framfylgir mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum