Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum samþykkt á Alþingi

Alþingi - myndStjórnarráðið

Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027. Áætlunin felur í sér 27 aðgerðir til að hrinda í framkvæmd stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 15. júní 2022. Þingsályktunin var samþykkt einróma með öllum greiddum atkvæðum þingmanna.

Þingsályktunartillagan um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum byggist á vinnu samráðshóps helstu hagaðila í geðheilbrigðismálum á landsvísu sem heilbrigðisráðherra skipaði í febrúar 2022. Samráðshópurinn vann drög að aðgerðaáætluninni sem birt voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og í framhaldi af því lögð fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga. Umsagnaraðilar fögnuðu þeim megináherslum sem fram koma í áætluninni og margir þeirra buðu fram krafta sína til samvinnu og samstarfs um framkvæmd aðgerða. Í öllum umsögnum kom fram vilji til að halda áfram að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu í landinu og almennt mikill áhugi á að leggja lóð á vogarskálarnar í markvissri innleiðingu áætlunarinnar. 

Meginmarkmið stefnu í geðheilbrigðismálum

  1. Geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
  2. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
  3. Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
  4. Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.

Við val á aðgerðum til að vinna að framkvæmd geðheilbrigðisstefnu var haft að leiðarljósi að þær væru skýrar, vel valdar, raunhæfar í framkvæmd og líklegar til að skila árangri. Sérstaklega er þar hugað að snemmtækum úrræðum. Einnig eru lagðar til skýringar á helstu leiðum notenda í gegnum kerfið með áherslu á að fækka gráum svæðum við veitingu þjónustu. Enn fremur er áhersla lögð á hvernig best megi uppfæra, bæta og fá stuðning við aðgerðaáætlunina ár frá ári með aðkomu breiðs hóps haghafa.

Miðað er við að aðgerðaáætlun geðheilbrigðisstefnu verði uppfærð árlega í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum