Hoppa yfir valmynd
14. júní 2023 Forsætisráðuneytið

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birtir skýrslu um velsældarhagkerfið á Íslandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Hans Kluge, framkvæmdastjóri WHO í Evrópu. - mynd

Skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um velsældarhagkerfið á Íslandi hefur verið birt. Hans Kluge, framkvæmdastjóri WHO í Evrópu, afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra skýrsluna formlega á velsældarþingi í Hörpu í dag.

Skýrslan sem á ensku ber heitið Country deep dive on the well-being economy - Iceland er sú fyrsta sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir um velsældarhagkerfi í einu landi.

Á undanförum árum hafa íslensk stjórnvöld lagt aukna áherslu á sjálfbærni og velsæld í aðgerðum sínum þar sem horft er til allra sviða samfélagsins. Ísland hefur einnig verið virkur í þátttakandi í samstarfi velsældarríkja (Wellbeing Economy Governments) þar sem markmiðið er að styðjast við aðra mælikvarða en eingöngu landsframleiðslu til að mæla framgang ríkja og lífsgæði íbúanna.

Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að samfélagslegar áskoranir tengdar velferðarkerfinu, efnahagskerfinu og umhverfinu hafi verið megindrifkraftar á bak við stefnubreytingu í átt að velsældarhagkerfi. Aukin áhersla á jafnréttismál hafi einnig fært málefni velsældar ofar á dagskrá. Þá hafi sterk staða kvenna í æðstu pólitísku embættum haft jákvæð áhrif.

Einnig er dregið fram að velsældaráherslurnar nái þvert yfir stjórnkerfið og yfir allt samfélagið. Í því skyni sé forræði þegar kemur að velsæld og sjálfbærni hjá forsætisráðuneytinu sem tryggi samhæfingu og meiri skuldbindingu við verkefnið. Í nálgun Íslands sé einnig horft til þess að aukin velsæld hafi jákvæð áhrif á heilsufar sem komi öllu samfélaginu til góða.

Forsætisráðherra flutti í morgun opnunarávarp velsældarþingsins. Þar ræddi ráðherra m.a. um mikilvægi samstarfs velsældarríkjanna og um velsældarvísa sem íslensk stjórnvöld hafi þróað til að mæla velsæld samfélagsins. Velsældarhagkerfið sé mun betur til þess fallið að takast á við loftslagsvandann, sem sé enn okkar stærsta áskorun, heldur en það efnahagskerfi sem höfum búið við síðustu áratugi.

Á velsældarþinginu átti forsætisráðherra einnig fund með Neil Gray, ráðherra umhverfis- og velsældarmála í Skotlandi þar sem samstarf velsældarríkjanna, sem Skotland hefur verið leiðandi í, var til umræðu.

Velsældarþinginu lýkur í Hörpu á morgun.

  • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birtir skýrslu um velsældarhagkerfið á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin birtir skýrslu um velsældarhagkerfið á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Neil Gray, ráðherra umhverfis- og velsældarmála í Skotlandi, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum