Hoppa yfir valmynd
15. júní 2023 Dómsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Greining á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis lögð fram

Unnin hefur verið greining á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis í samræmi við ákvörðun dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við heilbrigðisráðherra. Markmið verkefnisins var að greina hentugustu leiðir til að tryggja starfsemi miðstöðva fyrir þolendur ofbeldis til framtíðar á Íslandi og hver aðkoma lögreglunnar ætti að vera að miðstöðvunum. Var embætti ríkislögreglustjóra falið að vinna greininguna og var Kristínu Hjálmarsdóttur, sjálfstætt starfandi kynjafræðingur fengin til verksins.

Helstu niðurstöður eru að þörf sé á bæði fjárhagslegum og kerfislægum stuðningi frá stjórnvöldum til að tryggja starfsemi þolendamiðstöðva til framtíðar. Þar með talið að setja mögulega sérstök lög um þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, skilgreina og efla stuðningsþjónustu fyrir þolendur ofbeldis, endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og móta samræmdar reglur fyrir samstarfsaðila og leiðbeiningar fyrir fagfólk.

Lögreglan mikilvægur samstarfsaðili

Jafnframt er mælt með því að verklagsreglur ríkislögreglustjóra í heimilisofbeldismálum verði endurskoðaðar, hvatt til þess að lögregluembættin séu alltaf samstarfsaðilar miðstöðvanna, auk þess sem hlutverk lögreglu og ákærusviðs innan miðstöðvanna verði skilgreint þ.m.t. er snýr að skýrslutöku þar, stefna um viðveru lögreglu mörkuð, og hugað að því að efla áfram þekkingu og skilning lögreglunnar á heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi.

Miðstöðvarnar sem byggja á bandaríska Family Justice Center líkaninu eru fjölskipaðar, þverfaglegar miðstöðvar sem t.d. sveitarfélög, þolendasamtök, heilbrigðisstofnanir, lögregla og fleiri leggja til starfsfólk til að hægt sé að veita þolendum kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis sem mesta þjónustu á einum stað.  Þrjá slíkar miðstöðvar eru starfandi á Íslandi: Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Selfossi. 

Veik tengsl við velferðarþjónustu sveitarfélaga

Greiningin leiðir í ljós að helstu styrkleikar miðstöðvanna eru að þær hafa fest sig í sessi, viðhorf til þeirra er jákvætt, starfsfólkið faglegt og hæft, samstarfsaðilar innan húss og utan margir og tengslanet sterk, þjónustan fjölbreytt og nálgun við hana í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins, samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Helstu sameiginlegir veikleikar þeirra eru óljós stefna og framtíðarsýn, veik tengsl við velferðarþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðiskerfið og ókerfisbundið samstarf og samráð. Helstu ógnir í ytra umhverfi miðstöðanna er óljós ábyrgð á málefnum þjónustumiðstöðvanna og þjónustu almennt í þágu þolenda og ótrygg fjármögnun til framtíðar. Sveitarfélögum ber skylda til að sinna almennri velferðarþjónustu en engar kröfur eru gerðar til þeirra um að veita eða auðvelda aðgengi þolenda ofbeldis að nauðsynlegri þjónustu.  Skilgreiningar á miðstöðvunum, kröfum sem gerðar eru til þeirra, samstarfsaðila, gæða þjónustunnar og ábyrgð á eftirliti og fjármögnun skortir. Lykilþáttur í starfsemi þeirra er þverfaglegt samstarf, samráð og samþætting þjónustu við þolendur. Óvissa um heimildir til að skrá og deila eða miðla upplýsingum milli samstarfsaðila er stór áskorun sem miðstöðvarnar og einstakir aðilar sem þjónusta þolendur standa frammi fyrir er. Einnig skortir leiðbeiningar og samskiptareglur um samstarf og samráð.  

Greining á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum