Hoppa yfir valmynd
14. september 2023 Innviðaráðuneytið

Fjárlög 2024: Framkvæmdir við Ölfusárbrú hefjast og aukin framlög í innanlandsflugvelli

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 hefur verið lagt fram á Alþingi. Framlög til verkefna innviðaráðuneytis nema 111,6 milljörðum króna og þar af nema framlög til samgöngumála 53 milljörðum króna. Um er að ræða hækkun um 3,6 milljarða eða um 7,3%. Á næsta ári munu framkvæmdir við Ölfusárbrú hefjast og áfram unnið að fækkun einbreiðra brúa og framkvæmdum við að aðskilja akstursstefnur á Kjalarnesi og Reykjanesbraut. Þá er aukin áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla með tilkomu varaflugvallargjalds og vinna hafin vegna endurbyggingar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. 

  • 53 milljarðar króna  til samgöngumála
  • Um er að ræða hækkun um 3,6 milljarða króna eða um 7,3%.

Framkvæmdir og viðhald vega

Mikil þörf er fyrir aukið viðhald vega og uppbyggingar vegamannvirkja vegna aukins umferðarþunga. Alls fara tæplega 29 milljarðar króna í ýmsar vegaframkvæmdir og viðhald á árinu 2024 og af því fara 2,5 milljarðar króna til félagsins Betri samgöngur sem fer með samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu.

Það sem ber hvað hæst er að framkvæmdir munu hefjast við byggingu nýrrar Ölfusárbrúar sem beðið hefur verið eftir lengi. Verður um að ræða mikla samgöngubót á Suðurlandi sem er eitt af stærri ferðamannsvæðum landsins.

Áfram unnið að því að auka öryggi á stofnvegum í kringum höfuðborgarsvæðið með aðskilnaði akstursstefna á Kjalarnesi og Reykjanesbraut.

Fækkun einbreiðra brúa á hringvegi heldur áfram með framkvæmdum við hringveg um Hornafjarðarfljót þar sem einbreiðum brúm fækkar um þrjár. Einnig verður unnið að framkvæmdum utan hringvegar sem fela í sér fækkun einbreiðra brúa, þar af lýkur fimm verkefnum á árinu 2024.

Undirbúningur Sundabrautar

Undirbúningur vegna Sundabrautar heldur áfram þar sem unnið er að mati á umhverfisáhrifum, útfærslu valkosta, breytingum á skipulagsáætlunum auk samráðs við hagaðila. Í kjölfarið hefst undirbúningur útboðsferlis.

Framkvæmdir og viðhald á flugvöllum og höfnum

Aukin áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla en alls fara um 1.350 m.kr. til þeirra verkefna með tilkomu varaflugvallagjalds þar sem lögð verður áhersla á uppbyggingu varaflugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Samhliða verður unnið að uppbyggingu minni lendingarstaða svo þeir geti þjónað hlutverki sínu vegna sjúkra- og almannaflugs.

Einnig verður hafin vinna vegna endurbyggingar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Unnin verður þarfagreining með flugrekendum og flugafgreiðsluaðilum ásamt hönnunarundirbúningi.

Áfram verður unnið að uppbyggingu hafnarmannvirkja annars vegar í gegn um hafnarbótarsjóð og hins vegar framkvæmdir við vita og hafnir en framlög til þess verða um 2.157 m.kr. 2024. Meðal helstu verkefna eru endurbygging og endurbætur hafna á Siglufirði, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Ísafirði.

Jarðgangaáætlun

Fyrir liggur tillaga að forgangsröðun jarðgangakosta með hliðsjón af markmiðum samgönguáætlunar um greiðar samgöngur, öruggar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæða byggðaþróun. 

Áætlanir gera ráð fyrir að á árinu 2024 hefjist undirbúningur og rannsóknir vegna Siglufjarðarskarðsganga, Hvalfjarðarganga 2 og jarðganga milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur þannig að hægt verði að fara í framkvæmdir á þeim í framhaldi af gerð Fjarðarheiðarganga.

Fjármögnun jarðgangaáætlunar er eitt af verkefnum í heildarendurskoðun tekjuöflunar af ökutækjum og umferð. Stefnt er að hóflegri gjaldtöku vegna þessarar uppbyggingar sem nánar verður útfærð í samvinnu innviðaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Vistvænar samgöngur

Bregðast þarf hratt við til þess að standa við skuldbindingar og uppfylla metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2030 miðað við losun ársins 2005 og full orkuskipti árið 2040. Samdráttur frá vegasamgöngum er einn af lykilþáttunum í að árangur náist. Árið 2022 orsökuðu vegasamgöngur þriðjung losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands og var stærsti einstaki losunarflokkurinn.

Áfram verður unnið að vegvísi að vistvænum samgöngum á Íslandi til ársins 2030 með skilgreindum og tímasettum aðgerðum sem miði að því að markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við 2005 verði náð. Vegvísirinn verður unninn samhliða uppfærslu á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum