Hoppa yfir valmynd
15. september 2023 Forsætisráðuneytið

Greinargerðir sérfræðinga vegna endurskoðunar stjórnarskrár

Greinargerðum sérfræðinga sem forsætisráðherra fól að taka saman um kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi hefur nú verið skilað til forsætisráðuneytisins. Vinna sérfræðinganna er liður í heildaráætlun um endurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum sem hófst 2018 og í samræmi við áform sem fram koma í stjórnarsáttmála.

Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður vann greinargerð um IV. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um Alþingi. Eitt helsta nýmælið sem lagt er til er að stjórnmálasamtök og frambjóðendur geti kært ákvörðun Alþingis um gildi kosninga til Hæstaréttar. Nú er staðan sú að Alþingi úrskurðar sjálft um gildi alþingiskosninga. Þá er lagt til að sérstök ákvæði verði sett um ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis og að frumvörp falli niður við lok kjörtímabils en ekki hvers þings að vori.

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, vann greinargerð um V. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um dómstóla. Hann leggur til að hnykkt sé á sjálfstæði dómsvaldsins þannig að í almennri löggjöf skuli mælt fyrir um dómstig og fjölda dómara og áréttað í stjórnarskrá að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll ríkisins. Einnig eru lagðar til breytingar sem miða að því að skerpa eftirlitshlutverk dómsvalds gagnvart framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi. Loks er lög til breyting varðandi eftirlaunaréttindi hæstaréttardómara.

Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Valgerður Sólnes, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, unnu greinargerð um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Þar segir m.a. að gildandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar hafi staðist tímans tönn. Hins vegar hafi umræða um mannréttindi á undanförnum þremur áratugum eða svo þróast í átt til aukinnar viðurkenningar réttinda sem hópar eða samfélög geti átt tilkall til. Er það sérstaklega horft til tengsla mannsins við umhverfi og náttúru.

Þannig eru í greinargerðinni lagðar til breytingar er varða auðlindir, umhverfi og eignarétt. Í því felast breytingar á frumvarpi því sem forsætisráðherra hafði flutt á á Alþingi fyrir síðustu kosningar. Snúa þær m.a. að því auðlindir skuli nýttar á sjálfbæran og hagkvæman hátt og tiltekinni einföldun á umhverfisverndarákvæðinu. Einnig leggja sérfræðingarnir til að bundin verði í stjórnaskrá og bætt við eignarréttarákvæðið meginreglu um að eignarréttur verði ekki skertur nema í almannaþágu og á grundvelli lagaheimildar. Þá er lagt til að ný ákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga komi í stjórnarskrá í ljósi þróunar í upplýsingatækni.

Í samræmi við áætlun um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar mun forsætisráðherra leita samstarfs við fræðasamfélagið og aðra aðila um umræðu og umfjöllun um tillögurnar. Þá mun forsætisráðherra kanna hljómgrunn hjá öðrum formönnum stjórnmálaflokkanna fyrir því að standa saman að tillögum um breytingar á stjórnarskránni.

 

Greinargerð Þórðar Bogasonar um Alþingiskafla

Greinargerð Hafsteins Þórs Haukssonar um dómstólakafla

Greinargerð Róberts Spanó og Valgerðar Sólnes um mannréttindakafla

Um stjórnarskrárendurskoðun 2018-2025

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum