Hoppa yfir valmynd
27. september 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Education at a Glance 2023 – starfsnám lykill að aðlögun

Niðurstöður Efnahags- og framfarastofnunarinnar um stöðu menntunar innan OECD-ríkja liggja nú fyrir. Áherslan þetta árið var á starfsnám sem samkvæmt OECD er lykillinn að því að mæta aukinni eftirspurn eftir faglærðu vinnuafli og að aðlagast breytingum á vinnumarkaði. Niðurstöðurnar sýna að mun lægra hlutfall ungmenna hér á landi er í starfsnámi og færri klára námið á tilsettum tíma borið saman við önnur OECD-ríki. Jafnframt sýna þær að hlutfall karla með háskólamenntun er lágt á Íslandi og fer lækkandi.

Education at a Glance tekur árlega saman gögn yfir fyrirkomulag, fjármögnun og árangur menntakerfa OECD-ríkja og annarra samstarfslanda.

Starfsnám

Hlutfall framhaldsskólanema í starfsnámi er lægra á Ísland (31%) borið saman við hin Norðurlöndin, einkum Noreg (52%) og Finnland (68%), og meðaltal OECD (44%).

Lægra hlutfall hérlendis lýkur framhaldsskóla á tilsettum tíma, einkum í starfsnámi. 64% af þeim sem fara í framhaldsnám (bóknám eða starfsnám) hérlendis ljúka náminu á tilsettum tíma en meðaltal OECD er 77%. Aðeins 40% af nemendum í starfsnámi ljúka námi á tilsettum tíma en meðaltal OECD er 62%.

Um 15% 25–34 ára Íslendinga hafa starfsnám sem hæsta menntunarstig sem er lækkun frá árinu 2015 (17%). Það er sambærileg þróun og hjá OECD.

Menntun landsmanna

Hæsta menntunarstig 25–34 ára árið 2022

 

Mikill munur er á menntun eftir kyni hér á landi. Meira en tvöfalt fleiri 25-34 ára karlar (31%) en konur (14%) hafa grunnskólapróf sem hæsta menntunarstig og næstum tvöfalt fleiri konur (55%) eru með háskólapróf samanborið við karla (29%).

Athygli vekur að Ísland er í fimmta efsta sæti innan OECD í hlutfalli karla með grunnskólapróf sem hæsta menntunarstig. Jafnframt sýnir þróunin frá 2015 að Ísland er eitt af einungis fjórum löndum innan OECD þar sem hlutfall karla með háskólamenntun lækkar. Það fór úr 30% í 29% en þetta hlutfall fer almennt hækkandi innan OECD.

Innritunarhlutfall 3 ára barna í leikskóla var 97% hérlendis borið saman við 73% meðaltal OECD-ríkja (2021).

Símenntun

Mun meira er um að 25–64 ára einstaklingar hér á landi taki þátt í óformlegri starfstengdri menntun (e. non-formal job-related education) en að meðaltali innan OECD. Þetta hlutfall er:

  • 12% hjá þeim sem hafa lokið starfsnámi (7% hjá OECD)
  • 10% hjá þeim sem hafa lokið almennu framhaldsnámi (7% hjá OECD)
  • 22% hjá þeim sem hafa lokið háskólanámi (14% hjá OECD)

Fjármögnun

Skipting menntaútgjalda

 

6,3% af vergri landsframleiðslu fer í útgjöld vegna menntunar á Íslandi borið saman við 5,1% hjá OECD. Útgjöld á hvern ársnema sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á mann er svipuð hérlendis (28%) borið saman við meðaltal OECD (27%).

Meðallaunakostnaður íslenskra grunnskólakennara á hvern nemanda er 40% hærri en meðaltal OECD.

Innsýn í menntakerfið

Niðurstöður Education at a Glance veita innsýn inn í íslenskt menntakerfi og samanburð við önnur lönd. Gögnin eru mikilvægt innlegg í greiningar- og stefnumótunarvinnu stjórnvalda og menntasamfélagsins.

Mikilvægt er að auka vægi starfsnáms hér á landi til að mæta aukinni eftirspurn eftir faglærðu vinnuafli og að aðlagast breytingum á vinnumarkaði samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni. Ekki er síður mikilvægt að vinna gegn brotthvarfi úr námi, einkum meðal karlmanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum