Hoppa yfir valmynd
2. október 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ísland áfram meðal 20 mest nýskapandi ríkja heims

Listi Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO) yfir mest nýskapandi ríki heims árið 2023, Global Innovation Index, hefur verið gefinn út. Ísland situr, líkt og í fyrra, í 20. sæti listans en Sviss, Svíþjóð og Bandaríkin raða sér í efstu þrjú sætin. Öll Norðurlöndin eru á topp-20 listanum en aðeins Ísland hækkar ekki milli ára:

  • Svíþjóð (2. sæti)
  • Finnland (6. sæti)
  • Danmörk (9. sæti)
  • Noregur (19. sæti)
  •  Ísland (20. sæti)

Listinn byggir á vísitölu Alþjóðahugverkastofunnar sem byggir á mati á um 80 mismunandi þáttum sem m.a. líta til aðstæðna til nýsköpunar og afrakstri hennar. Af 39 Evrópulöndum sem nýsköpunarvísitalan nær til situr Ísland í stað á milli ára, í 12. sæti, og skorar hátt miðað við þjóðarframleiðslu. Þá telur Alþjóðahugverkastofan að aðstæður til nýsköpunar á Íslandi hafi farið fram milli ára en að afrakstur nýsköpunar sé minni en áður.

Ísland er efst á lista fyrir rafmagnsframleiðslu á íbúa, innlenda kvikmyndaframleiðslu, skráningar á völdum lénum, m.a. .com, greiðslur fyrir hugverkaréttindi, fjölda birta vísindagreina á íbúa og fjölda áhættufjárfestinga. Einnig skorar Ísland yfir meðaltali í þáttum sem tengjast stofnunum, innviðum og þroska viðskiptaumhverfis (e. business sophistication).

Ýmsir mælikvarðar Alþjóðahugverkastofunnar eru ekki sniðnir að auðlindaríkum smáþjóðum og skorar Ísland því lágt í flokkum á borð við stærð innanlandsmarkaðar miðað við þjóðarframleiðslu (128. sæti), hlutfall erlendrar fjárfestingar af þjóðarframleiðslu (128. sæti) og þjóðarframleiðslu miðað við orkunotkun (125. sæti), en alls tekur nýsköpunarvísitalan til 132 landa. Einnig situr Ísland neðarlega á lista yfir háskólanema sem útskrifast úr STEM-greinum, þ.e. verkfræði-, raunvísinda- og tæknigreinum, líkt og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, hefur beint sjónum að frá stofnun ráðuneytisins

,,Það er lykilatriði að fjölga þeim nemendum sem stunda nám í STEM greinum, ekki aðeins er skortur á slíku starfsfólki heldur felast í því gríðarleg tækifæri fyrir samfélagið og verðmætasköpun. Ef við eigum að fjölga stoðum samfélagsins þá er háskólamenntun í þessum greinum mikilvægur hlekkur," sagði ráðherra í sambandi við áherslu á fjölgun nemenda í vísinda-, tækni- og listgreinum, verkfræði og stærðfræði með auknu samstarfi háskóla. Auk þess er að finna hvata til eflinga kennslu í háskólum á þessu sviði í nýrri árangurstengdri fjármögnun háskóla sem kynnt var á dögunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum