Hoppa yfir valmynd
12. október 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vel heppnaður fundur menntamálaráðherra Evrópuráðsins í Strassborg

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Erna Kristín Blöndal ráðuneytisstjóri og Guðni Olgeirsson, sérfræðingur mennta- og barnamálaráðuneytisins, í Strassborg - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Ragnhildur Arnljótsdóttir, sendiherra og fastafulltrúi Íslands, tóku þátt í 26. fundi menntamálaráðherra Evrópuráðsins sem haldinn var í Strassborg 28. og 29. september sl.

Yfirskrift fundarins var Umbreytandi kraftur menntunar: Grunngildi og borgaraleg endurnýjun (The Transformative Power of Education: Universal Values and Civic Renewal). Um var að ræða fyrsta formlega fund menntamálaráðherra frá árinu 2016.

Á fundinum samþykktu ráðherrar nýja menntaáætlun Evrópuráðsins 2024–2030 og ýmsar ályktanir um menntamál. Um 250 fulltrúar frá aðildarlöndum, stofnunum og félagasamtökum sóttu fundinn og mikill samhljómur var um að menntakerfið væri mjög mikilvægt til að fylgja eftir Reykjavíkuryfirlýsingunni sem samþykkt var á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í vor um að styrkja grunngildin lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.

Í lok fundar voru samþykktar fimm ályktanir sem er ætlað að árétta mikilvægt hlutverk menntunar til eflingar lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis, viðurkenna þörfina á afgerandi aðgerðum til að takast á við hnattrænar áskoranir, styrkja fyrirkomulag Evrópuráðsins til að styðja við menntakerfið og lýðræðislega framtíð fyrir alla nemendur. Bæði ný menntaáætlun Evrópuráðsins og ályktanir falla vel að íslenskri stefnumótun og geta nýst vel á næstu árum við innleiðingu menntastefnu og farsældarlaga.

Ráðherra flutti ávarp á fundinum þar sem hann fjallaði um mikilvægi Reykjavíkuryfirlýsingarinnar frá leiðtogafundinum til að styrkja lýðræðis- og mannréttindamenntun í öllum aðildarlöndum með áherslu á inngildingu allra, einnig viðkvæma hópa, í menntakerfið. Hann greindi einnig frá menntastefnu Íslands til 2030 og heildstæðri nálgun um menntun, velferð og farsæld barna og ungmenna og mikilvægi virkrar aðkomu barna og ungmenna að mótun eigin framtíðar, þar á meðal með virku lýðræði í skólum.

Ráðherra hélt einnig tvíhliða samráðsfund með Lettlandi sem gegnir formennsku í Evrópuráðinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum