Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs

TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð. Lagt er upp með að innan TEAM-Iceland verði fremstu sérfræðingar á sviði íþrótta sem vinni saman að því markmiði að hámarka árangur íslensks íþróttafólks.

TEAM-Iceland verkefnið verður til umfjöllunar á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi sem haldin er mánudaginn 20. nóvember kl. 9–16 í (uppfært) Silfurbergi í Hörpu. Mennta- og barnamálaráðuneytið hvetur öll áhugasöm um íþrótta- og afreksstarf til að mæta.

Starfshópur Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks vinnur nú að tillögum um bætta umgjörð afreksíþróttastarfs á Íslandi, í samvinnu við íþróttahreyfinguna og fræðasamfélagið.

Með verkefninu TEAM-Iceland er stefnt að því að bæta umhverfi afreksíþróttafólks, s.s. líkamlega þjálfun þeirra og heilsu, efla þátt mælinga og stöðumata, og efla jafnframt þjónustu næringarfræðinga. Þá þarf fleiri vísindarannsóknir, meiri vinnu við að bæta andlega og félagslega líðan íþróttafólksins, sem og öfluga hæfileikamótun í samstarfi við skóla- og fræðasamfélagið. Með slíkri miðstöð þyrfti einnig að vinna að bættri menntun og umgjörð fyrir íþróttaþjálfara en markmið TEAM-Iceland væri jafnframt að styðja við framgang og faglega umgjörð Afrekssviða og -brauta í framhaldsskólum landsins.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, ÍSÍ og UMFÍ undirrituðu í vikunni viljayfirlýsingu um að koma á fót átta nýjum starfsstöðvum íþrótta í samvinnu við íþróttahéruð vítt og breitt um landið til eflingar íþróttastarfs. Fyrirhuguð miðlæg afreksmiðstöð gæti þannig unnið enn frekar með nýju starfsstöðvunum að bættri umgjörð afreksíþróttastarfs og samræmingu við annað íþróttastarf.

Vésteinn Hafsteinsson, sérfræðingur mennta- og barnamálaráðuneytisins og afreksstjóri ÍSÍ leiðir starfshópinn:

„Í þessu ferli starfshópsins þá er grundvallaratriði að sú vinna sé unnin að fagfólki hvert á sínu sviði. Íþróttahreyfingin verður að tengjast öllum stigum skólakerfisins mjög náið til þess að ná sem mestum árangri í íþróttum í framtíðinni. Menntun og endurmenntun þjálfara er grunnurinn fyrir slíkri þróun auk rannsókna og mælinga á íþróttafólkinu,“ segir Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ og formaður starfshóps ráðherra.

Uppfært 09.11.23 kl. 8:05

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum