Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fyrsta grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks

Stöðumat og valkostagreining (grænbók) í málefnum innflytjenda og flóttafólks hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þetta er í fyrsta sinn sem slík grænbók hefur verið unnin í málaflokknum. Hún er enn fremur birt á þremur tungumálum: Íslensku, ensku og pólsku.

Í henni er mat lagt á stöðuna í málefnum innflytjenda og flóttafólks og áskoranir og tækifæri greind til framtíðar. Lykilviðfangsefni í grænbókinni munu leggja grunn að framtíðarstefnumótun á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Grænbókin er niðurstaða af vinnu stýrihóps um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks og var unnin í breiðu samráði með ýmsum haghöfum, til að mynda í margvíslegum vinnuhópum og með samtali í rýnihópum, auk þess sem sérfræðingar frá OECD greindu ýmsar upplýsingar og veittu ráðgjöf.

Mögulegt er að senda inn umsagnir um grænbókina til 8. desember nk. og er það gert í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. Mælst er til þess að umsagnir berist annað hvort á íslensku eða ensku.

 

 

Að umsagnarferli loknu verða niðurstöður dregnar saman og stefna mótuð (hvítbók) sem inniheldur framtíðarsýn í málaflokknum og markmið sem marka leiðina ásamt áherslum. Við vinnslu stefnunnar mun ráðuneytið boða til samtals hringinn í kringum landið þar sem innflytjendur verða sérstaklega hvattir til að mæta og taka þátt. Stefnan verður síðan birt í áðurnefndri samráðsgátt og loks lögð fram á Alþingi sem þingsályktunartillaga.

Innflytjendur eru mannauður

Fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld ekki haft sértæka stefnu hvað varðar inngildingu fólks í samfélagið. Þó er í gildi Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025 sem tók við af áætlun áranna 2016-2019.

„Með stefnumótuninni sem nú stendur yfir erum við sem samfélag að taka stór og mikilvæg skref. Við þurfum að hafa í huga að innflytjendur á Íslandi eru mannauður. Þeir eru í dag ríflega 18% landsmanna og fer fjölgandi,“ segir Áshildur Linnet, formaður stýrihópsins.

„Innflytjendur á Íslandi eru fjölbreyttur hópur fólks sem flust hefur hingað til lands af ýmsum ástæðum. Innflytjendur hafa að mörgu leyti þörf fyrir sértæka þjónustu, sérstaklega á fyrstu árum búsetu sinnar hér á landi. Nauðsynlegt er að skýrt sé til hvers sé ætlast af þeim sem hingað flytjast, veittur sé nauðsynlegur stuðningur við fyrstu skrefin í nýju landi og að samfélagið sé inngildandi og geri ráð fyrir fjölbreytileika.“

Lykilviðfangsefnin fram undan

Stöðumatið í grænbókinni er sett fram í þemaskiptum köflum og má þar nefna menntun, vinnumarkað og samfélag. Út frá matinu eru síðan greind tíu lykilviðfangsefni í stefnumótuninni sem fram undan er. Má þar nefna að stefna skuli að inngildandi samfélagi þar sem gert sé ráð fyrir að innflytjendur séu þátttakendur á öllum sviðum, að aðkoma innflytjenda að ákvarðanatöku um eigin málefni verði tryggð og að kennsla í íslensku sem öðru máli verði efld.

Framangreind stefnumótun byggir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að móta skuli skýra og heildstæða stefnu í málefnum útlendinga sem miði að því að fólk sem sest að hér á landi hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Þá hefur Alþingi samþykkt þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025 en þar segir í fyrstu aðgerðinni að mótuð skuli stefna í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum