Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2023 Innviðaráðuneytið

Tímamótasamningur um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Vík ​

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps við undirritun samningsins - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, hafa undirritað samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Mýrdalshreppi á tímabilinu 2023-2028 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis.

Í samningnum við Mýrdalshrepp kemur fram það markmið að byggðar verði um 100 nýjar íbúðir á næstu fimm árum í samræmi við metna þörf samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins. Stefnt er að því að byggja allt að 22 íbúðir á ári á næstu fimm árum. Ofangreind markmið eru í takt við rammasamning ríkis og sveitarfélaga um að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á landsvísu á fyrrgreindu tímabili, til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf.  Sveitarfélagið mun jafnframt leitast við að tryggja nægjanlegt framboð byggingarhæfra lóða í samræmi við markmið samkomulagsins, þ. á m. í aðal- og deiliskipulagi sveitarfélagsins, þannig að byggingarhæfar lóðir ár hvert rúmi 20-30 íbúðir.

Sigurður Ingi Jóhannsson: „Ég fagna því að Mýrdalshreppur sé fyrst sveitarfélaga á landsbyggðinni til að stíga þetta skref og setja sér skýra stefnu um aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Mikil fjölgun íbúa hefur átt sér stað í Vík og mikilvægt að mörkuð sé skýr stefna til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf. Við stefnum að gríðarlegri uppbyggingu á næstu árum um allt land og mikilvægt að ríki og sveitarfélög hafi sameiginlega sýn til að mæta þeirri þörf sem blasir við.“

Samningurinn byggir á rammasamningi ríkis og sveitarfélaga frá 12. júlí 2022 þar sem sameinast var um sýn og stefnu í húsnæðismálum til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Rammasamningurinn sjálfur byggði á tillögum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði þar sem samstaða var um mikilvægi þess að tryggja aukið framboð íbúða til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði.

Einar Freyr Elínarson: „Samkomulagið markar tímamót fyrir Mýrdalshrepp og styður við markmið sveitarfélagsins um heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir ört fjölgandi hóp íbúa. Mýrdalshreppur verður við undirritun samkomulagsins annað sveitarfélagið á landinu til þess að marka skýra stefnu um aukið framboð íbúðarhúsnæðis á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga. Aukið framboð íbúða er lykilatriði í því að styðja við sjálfbæra byggðaþróun og samvinna ríkis og sveitarfélagsins er mikilvægur liður í áframhaldandi uppbyggingaráformum Mýrdalshrepps.“

Af nýjum íbúðum verður hlutfall hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði að jafnaði um 30% og félagslegt húsnæði að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði.

Fylgiskjöl:

  1. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum, dagsettur 12. júlí, 2022.
  2. Samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Mýrdalshreppi
  3. Húsnæðisáætlun Mýrdalshrepps 2024

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum