Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vinnum gullið með stuðningi, samvinnu og fjármagni

Áhugafólk um íþróttir kom saman í Hörpu á mánudag til að ræða eflingu afreksíþróttastarfs á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur safnað spurningum þátttakenda og niðurstöðum úr hópvinnu sem innlegg í vinnu starfshóps um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

„Hvað sameinar okkur meira heldur en íþróttirnar? Við förum heim með þann boðskap í huga. Þessi vinna ykkar hérna í dag er gríðarlega mikilvæg og við ætlum að klára þetta, við ætlum að stíga nauðsynleg skref til að ná sem bestum árangri með hag afreksíþróttafólks okkar í huga.” sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra við ráðstefnuslit.

Stuðningur, samvinna og fjármagn stóðu upp úr í hugum ráðstefnugesta í könnun á því mikilvægasta til að hámarka árangur afreksíþróttafólks.

Sama bar á góma í framsögu og pallborðsumræðum og var skortur á fjárstuðningi áberandi í máli afreksíþróttafólks. Hrafnhildur Lúthersdóttir, Björgvin Páll Gústavsson, Anton Sveinn McKee og Sif Atladóttir ræddu fjárhagslegu, félagslegu og sálfræðilegu hliðar afreksíþróttaiðkunar í pallborði.

Vésteinn Hafsteinsson, sem leiðir starfshópinn, kynnti áform um bætta umgjörð afreksíþróttastarfs með áherslu á víðtækan stuðning við afreksíþróttafólk með miðlægu fagteymi. Stuðningurinn snýr ekki eingöngu að fjárstuðningi og aðstöðu til þjálfunar heldur einnig að réttindum afreksíþróttafólks og aðgengi að mælingum og sérfræðingum s.s. þjálfurum, sjúkraliðum, læknum, næringarfræðingum, sálfræðingum og ráðgjöfum. Horfa þurfi til langs tíma en ekkert komi í veg fyrir að Íslendingar standi í fremstu röð í íþróttum við rétta umgjörð afreksíþróttastarfs.

Að sögn Vésteins er Ísland með eitt besta kerfi heims fram að 12 ára aldri þegar kemur að íþróttaiðkun barna og þjálfun. Dr. Erlingur Jóhannsson, prófessor, Íslandsmethafi í 800 m hlaupi og meðlimur starfshópsins, vakti athygli á stöðugt minnkandi íþróttaiðkun á unglingsárunum borið saman við á barnsaldri og ljóst að bregðast þarf við þessari þróun. Mikilvægi afreksbrauta í framhaldsskólum var dregið fram og horft til reynslu Norðmanna af öflugu íþróttastarfi í sérhæfðum íþróttaframhaldsskóla.

Jafna þarf tækifæri til íþróttaiðkunar á landsbyggðinni og fjallaði Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness og meðlimur starfshópsins, um íþróttasveitarfélög og nýjar svæðisskrifstofur og íþróttasvæði með samlegð við önnur verkefni ríkis og sveitarfélaga s.s. farsæld og lýðheilsu. Fjárstuðningur ríkis og sveitarfélaga var til umræðu ásamt mikilvægi aðkomu atvinnulífsins. Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar, sagði frá reynslu af framlagi til afreksíþróttastarfs og -fólks út frá hlið atvinnulífins.


Frá hópvinnu

Vel á fjórða hundrað manns sóttu ráðstefnuna og komu ríflega tvö þúsund inn á streymið. Mennta- og barnamálaráðuneytið, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga stóðu að ráðstefnunni og þakka ráðstefnugestum fyrir sitt framlag til vinnunnar. Vinnum gullið!

Upptaka af ráðstefnu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum