Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Alþingi samþykkti einróma frumvarp um stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavíkurbæ

Alþingi samþykkti í gær frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavíkurbæ var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi í gær. 

Í kjölfar þess að Grindavík var rýmd þann 10. nóvember sl. hófst vinna í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu við gerð frumvarpsins. Áður en vika var liðin frá rýmingunni var frumvarpið tilbúið til samþykktar í ríkisstjórn. Ráðherra mælti síðan fyrir því á Alþingi þann 20. nóvember sl.

Önnur og þriðja umræða um frumvarpið fóru fram á þinginu í gær. Að þeim loknum var atkvæðagreiðsla þar sem allir viðstaddir þingmenn samþykktu frumvarpið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Það er mikilvægt að við stöndum með Grindvíkingum og styðjum fólk og aðstoðum með öllum þeim ráðum sem við höfum. Lögin sem nú hafa tekið gildi munu skipta sköpum í því sambandi. Ég er einstaklega ánægður með það hversu hratt og vel málið var unnið í ráðuneytinu, hjá Vinnumálastofnun, í velferðarnefnd og í þinginu. Við áttum líka mjög gott samstarf við ASÍ, SA og önnur ráðuneyti.“

Lögin taka til starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem getur ekki mætt til vinnu vegna þess að starfsstöð þess er staðsett í Grindavíkurbæ. Markmið laganna er að vernda afkomu umræddra einstaklinga með því að tryggja laun þeirra upp að ákveðnu hámarki. Markmið laganna er sömuleiðis að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks þannig að sem flest þeirra sem vinna í Grindavík haldi störfum sínum.

Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna og vinnur nú að uppsetningu á umsóknarkerfi fyrir umsækjendur. 

Ef fyrirtæki sem fengið hafa ofangreindan stuðning ákveða að greiða eigendum sínum út arð fyrir lok febrúar 2025 ber þeim að endurgreiða stuðning ríkisins áður en til arðgreiðslna kemur. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum