Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnir aðgerðir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynntu tillögur ráðherranefndarinnar í dag.  - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson
Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi á næstu dögum. Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnti í dag tillögur sínar að alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar.

Nefndin var sett á laggirnar í nóvember 2022, að tillögu forsætisráðherra. Henni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni.

Yfirlit yfir aðgerðir:

1. Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu
2. Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
3. Virkjun Samevrópska tungumálarammans.
4. Fjarnám í íslensku á BA-stigi.
5. Sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli.
6. Háskólabrú fyrir innflytjendur.
7. Viðhorf til íslensku.
8. Mikilvægi lista og menningar.
9. Aukin talsetning og textun á íslensku.
10. Íslenskugátt
11. Öflug skólasöfn.
12. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn.
13. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu.
14. Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik og grunnskólum og frístundastarfi.
15. Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum
16. Framtíð máltækni.
17. Íslenska handa öllum.
18. Íslenska er sjálfsagt mál.
19. Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.

Unnið hefur verið að mótun aðgerðanna í samstarfi ráðuneytanna fimm en þær snerta flest svið samfélagsins. Þær eru misumfangsmiklar en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Leiðarstef í aðgerðunum er að bæta aðgengi og gæði íslenskukennslu, stuðla að auknum sýni- og heyranleika tungumálsins og aukinni samvinnu um það langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.

Ráðgert er að framlög vegna aðgerðanna muni nema um 1.365 milljónum kr. en í áætluninni eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar að fullu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður verði hærri. Auk aðgerðanna 19 í áætluninni er víðar unnið að fjölbreyttum verkefnum í þágu íslenskrar tungu; hjá ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum og félagasamtökum.

Með áætluninni eru forgangsverkefni stjórnvalda í málefnum íslenskunnar skilgreind með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu. Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 voru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda sl. sumar. Alls bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari mótun aðgerðanna, auk þess sem fjölmargir umsagnaraðilar lýstu yfir ánægju sinni með aðgerðaáætlunina í heild sinni.
Menningar- og viðskiptaráðherra mun mæla fyrir þingsályktunartillögunni á næstu dögum og má fylgjast með ferli málsins á vef Alþingis.

„Okkur ber öllum mikil skylda til að varðveita íslenska tungu. Ekki bara gagnvart okkur sjálfum, heldur líka gagnvart heiminum. Tungumálið er verðmæti sem okkur hefur verið trúað fyrir og skiptir miklu að við eflum það og nærum og höldum áfram að hugsa og tala á íslensku um öll möguleg og ómöguleg svið mannlegrar tilveru. Ég fagna mjög áherslum í aðgerðaáætluninni á íslensku sem annað mál því við verðum að hjálpa nýjum Íslendingum að læra og skilja málið. Það er lykillinn að því að aðlagast samfélaginu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Íslensk tunga er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir en við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu á mörgum sviðum samfélagsins gagnvart stöðu hennar og þróun. Það verkefni kallar margar hendur til góðra verka. Nú höfum við skilgreint ákveðin forgangsmál og samvinnuverkefni sem því tengjast í nýrri aðgerðaáætlun – ég vonast til þess að málið komist fljótt á dagskrá þingsins og að við náum góðri umræðu á vettvangi þess um þetta mikilvæga málefni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Sjá einnig:

Upptaka fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar frá kynningarfundi ráðherranefndarinnar í Hörpu

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026

Er þetta málið? 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum