Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ísland aðili að alþjóðlegu samkomulagi um um geimkönnun og rannsóknir

Ísland aðili að alþjóðlegu samkomulagi um um geimkönnun og rannsóknir - myndBandaríska sendiráðið á Íslandi

Aðild Íslands að Artemis samkomulaginu var formgerð í liðinni viku þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi fögnuðu undirritun tvíhliða milliríkjasamnings þess efnis sem undirritaður var rafrænt fyrr í mánuðinum. Í Artemis samkomulaginu felst friðsamleg áætlun um könnun og hagnýtingu sólkerfisins á ábyrgan hátt, t.a.m. með áformum um mannaðar geimkönnunarferðir og mannaða ferð til tunglsins. Engar fjárhagslegar skuldbindingar felast í samkomulaginu en með því eru lagðar til sameiginlegar meginreglur um könnunarferðir innan tunglbrautarinnar. Ísland er þrítugasta landið til að gerast aðili að Artemis áætluninni.

Þátttaka Íslands í Artemis samkomulaginu hefur í för með sér mikil tækifæri fyrir rannsóknir og nýsköpun, auk tækifæra til að móta alþjóðlega umgjörð um umgengni í geimnum. Þá skuldbinda aðildarþjóðir sig til að deila rannsóknarniðurstöðum á sviði geimrannsókna sín á milli. Þannig er áætlað að aðgangur íslensks vísindafólks að slíkum gögnum og samstarfi um gögn og gagnaöflun geti orðið mikilvæg undirstaða fyrir rannsóknir á ýmsum sviðum háskóla- og vísindasamfélagsins, t.d. þegar kemur að jarðfræði, verkfræði, upplýsingatækni, efnafræði og fleiri greinum.

,,Það er mikil lyftistöng fyrir Ísland að tengjast Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) með þessum hætti. Þátttakan býður upp á ákveðið forskot hvað varðar rannsóknir og nýsköpun. Þetta er mikilvægt fyrsta skref þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi um geiminn,” sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fyrr í mánuðinum þegar tilkynnt var um gerð samningsins. 

Sjá einnig: Ráðherra geimvísinda skrifar undir samning við NASA

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum