Hoppa yfir valmynd
11. desember 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Geðráð tekið til starfa

Fulltrúar í nýstofnuðu Geðráði héldu annan fund sinn í liðinni viku. Ráðið er skipað af heilbrigðisráðherra í samræmi við aðgerðaáætlun um framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar til ársins 2027. Með stofnun þess hefur verið tryggð aðkoma helstu haghafa að stefnumótun, umbótum og þróun á sviði geðheilbrigðismála og geðheilbrigðisþjónustu. Á fundinum var unnið að setningu starfsreglna ráðsins sem síðan verða bornar undir ráðherra til staðfestingar.

Ein af megináherslum stefnu í geðheilbrigðismálum lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Þetta samstarf er formgert í aðgerðaáætlun um framkvæmd geðheilbrigðisstefnu til ársins 2027 þar sem m.a. er kveðið á um stofnun og hlutverk Geðráðs. Í ráðinu eiga sæti 17 einstaklingar að formanni meðtöldum. Sjö þeirra eru fulltrúar notenda, notendasamtaka eða félagasamtaka, þrír eru tilnefndir af háskólasamfélaginu, fimm eru fulltrúar þjónustuveitenda, auk fulltrúa embættis landlæknis og fulltrúa sveitarfélaga.

Geðráð er sjálfstæður samráðsvettvangur á sviði geðheilbrigðismála og hefur ráðgefandi hlutverk fyrir heilbrigðisráðherra í stefnumótun, skipulagi og samþættingu geðheilbrigðisþjónustu.

  • Geðráð tekið til starfa - mynd úr myndasafni númer 1
  • Geðráð tekið til starfa - mynd úr myndasafni númer 2
  • Geðráð tekið til starfa - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum