Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stóraukinn aðgangur að fjármögnun á betri kjörum til nýsköpunar og grænna lausna með InvestEU

Þátttaka Íslands í InvestEU áætlun Evrópusamstarfsins gefur fyrirheit um stórauknar fjárfestingar í nýsköpun, stafrænni væðingu og grænum lausnum hér á landi. Áætlunin felur í sér aðgang að 26 milljarða evra ábyrgðarsjóði með sérstakri áherslu á stuðning við fyrirtæki í nýsköpun og nýrri tækni, sjálfbæra uppbyggingu innviða og verkefni í þágu loftslagsmála. Með þessu stóreykst aðgengi að fjármagni til nýsköpunar, stafrænnar þróunar og grænna lausna á sömu vaxtakjörum og bjóðast í ríkjum Evrópusambandsins, en markhópar InvestEU eru fjölmargir, t.d. fjármálafyrirtæki, opinberar stofnanir og opinber fyrirtæki, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir en einnig lítil og meðalstór fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, boðaði fyrr í dag til kynningarfundar þar sem InvestEU áætlunin og framkvæmd hennar var kynnt. Fundinn sóttu m.a. fulltrúar þeirra banka og sjóða sem taka þátt í verkefninu auk forsvarsmanna áætlunarinnar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hægt er að horfa á upptöku af kynningarfundinum í spilaranum hér fyrir neðan.

Fjármögnun samfélagslegra mikilvægra verkefna

Með InvestEU aukast tækifæri til að fjármagna eða sækja ábyrgð vegna stórra, samfélagslega mikilvægra verkefna á Íslandi, hvort sem þau eru á vegum opinberra aðila, sveitarfélaga eða einkaaðila. Sem dæmi má nefna fjármögnun verkefna á sviði orkuframleiðslu, orkuskipta og innleiðingar hringrásarhagkerfis og stuðning við nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þar að auki styður áætlunin við önnur verkefni innan Samstarfsáætlunar ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar og eykur aðild því möguleika á þátttöku í stórum alþjóðlegum verkefnum á sviði nýsköpunar, sjálfbærrar þróunar og stafrænna umbreytinga.

Fjölbreytt fjármögnunarverkefni

Helstu framkvæmdaaðilar áætlunarinnar eru Evrópski fjárfestingabankinn (e. European Investment Bank - EIB), Evrópski fjárfestingasjóðurinn (e. European Investment Fund - EIF) og Norræni fjárfestingabankinn (e. Nordic Investment Bank - NIB).

Hvatt er til samstarfs milli opinberra aðila og einkaaðila um fjármögnun verkefna en með þátttöku Íslands eru aðgangur að fjármagni til nýsköpunar og þróunar á evrópskum kjörum stóraukinn. Vonir standa til þess að það fjármagn sem lagt er inn í InvestEU áætlunina skili sér margfalt inn í hagkerfi þátttökulandanna, í þágu velsældar og aukinnar samkeppnishæfni. Ísland og Noregur eru einu löndin utan ESB sem taka þátt í þessari áætlun.

Fjármögnun á betri vaxtakjörum

Líkt og fram hefur komið veitir þátttaka Íslands í InvestEU áætluninni fyrirtækjum, frumkvöðlum og fjárfestum aukin tækifæri til fjármögnunar nýsköpunarverkefna, á sviði grænna tæknilausna og stafrænnar væðingar, á sömu kjörum og bjóðast í ríkjum innan Evrópusambandsins. Áætluninninni er einnig ætlað að styðja við opinbera aðila, svo sem sveitafélög og stofnanir, til uppbyggingar innviða og nýrrar tækni í þágu aukinnar sjálfbærni og velferðar.

Ábyrgðarsjóður InvestEU hefur þegar stutt við fjármögnunarverkefni af ýmsum toga í Evrópu og fjölmörg verkefni eru handan við hornið. Af nýlegum dæmum má nefna 90 milljón evra lánasamning EIB við danska lyfjafyrirtækið Zealand Pharma vegna lyfjaþróunar og 40 milljón evra framlag EIF í evrópska Blume Equity vaxtarsjóðinn sem fjárfestir í grænum tæknilausnum. Þá hefur Nordic Investment Bank auglýst 300 milljón evra fjármögnun í formi lánveitinga, til uppbyggingar og innleiðingar endurnýjanlegra orkugjafa á Norðurlöndum.

Aðgangur að fjármögnunargátt

Auk ábyrgðarsjóðsins, hefur sérstök kynningargátt verið sett á fót undir nafninu InvestEU Portal. Um er að ræða upplýsingavettvang þar sem mögulegt er að skrá verkefni sem leita fjármögnunar, í þeim tilgangi að vekja athygli fjárfesta. Aðilar á Íslandi hafa nú aðgang að skráningum og samskiptum í gegnum InvestEU Portal gáttina. Frekari upplýsingar um InvestEU áætlunina og framkvæmd hennar verður hægt að nálgast hjá Kríu, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og fulltrúum Rannís.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum