Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2024 Forsætisráðuneytið

Nýtt vefsvæði um velsæld á vef Stjórnarráðsins

Forsætisráðuneytið hefur opnað vefsvæði um velsæld á vef Stjórnarráðsins. Á vefsvæðinu eru veittar gagnlegar upplýsingar um velsældarvísa og velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum forgangsraðað áherslum um aukna hagsæld og lífsgæði sem stefnumáli. Árið 2019 voru skilgreindir mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði, oft nefndir velsældarvísar, sem mæla félagslega, umhverfislega og efnahagslega þætti. Mælikvarðarnir eru 40 talsins. Þeir taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, byggja á opinberum hagtölum og eru samanburðarhæfir við önnur lönd.

Hagstofa Íslands heldur utan um vísasafnið og uppfærir reglulega. Mælikvarðarnir auðvelda stjórnvöldum að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Þeir styðja við stefnumótun innan málefnasviða ráðuneytanna og áætlanagerð ríkisfjármála.

Ríkisstjórnin ákvað undir lok ársins 2019 að sex velsældaráherslur yrðu í forgrunni við gerð fjármálaáætlunar. Áherslurnar eru andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlaus framtíð, gróska í nýsköpun og betri samskipti við almenning.

Á vefsvæðinu er einnig umfjöllun um þátttöku íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu samstarfi velsældarhagkerfa og tenglar á vefsvæði og skýrslur frá alþjóðastofunum um velsældarmál.

Stefnt er að því að haldið verði áfram að þróa vefsvæðið, m.a. með frekara upplýsingaefni, texta, myndum og myndböndum á næstunni og verður ensk útgáfa þess opnuð innan skamms.

 

Skoða nýtt vefsvæði um velsæld

PDF útgáfa af yfirlitsmynd um velsældaráherslur og velsældarvísa

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum