Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Bætt stoðþjónusta og nýting innviða með Samstarfi háskóla

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Meðal áherslna í Samstarfi háskóla fyrir árið 2023, niðurstöður hvers voru kynntar nýlega, er Stjórnsýsla, stoðþjónusta og nýting innviða og fá níu fjölbreytt verkefni sem falla í þann flokk alls um 178 milljónir króna úthlutað. Alls var tæplega 1,6 milljarði króna úthlutað til 35 fjölbreyttra verkefna sem skiptast í sex áhersluflokka sem allir hafa það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla.

Meistaranám við fleiri en einn háskóla

Nemendum íslenskra háskóla verður auðveldað að stunda meistaranám við fleiri en einn háskóla samtímis. Í þessu felst samhæfing úrlausna á þekktum áskorunum við sameiginlegt meistaranám sem miðlar verður til allra háskólanna. Lokamarkmið verkefnisins, sem allir háskólar landsins koma að, er að greiða fyrir sameiginlegu námsframboði háskólanáms á Íslandi, bæði við stofnun og utanumhald sameiginlegra námsleiða sem og stakra námskeiða. Sérstök áhersla verður lögð á að styðja við þrjú valin samstarfsverkefni á meistarastigi sem hlutu styrk úr Samstarfi háskóla á síðasta ári. Þetta eru Meistaranám og rannsóknir í netöryggi (Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík), Þverfaglegt meistaranám í heilbrigðislausnum (Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands) og Forsendur fyrir þverfaglegu meistaranámi í skipulagsfræði (Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskóla Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands).

Þrívíddarprentun og sýndarveruleiki nýtt í heilbrigðisnámi

Háskólinn í Reykjavík hefur verið leiðandi háskólastofnun í gerð og notkun þrívíddarlíkana og þrívíddarprentunar á sviði lækninga. Sýndarveruleiki og gangaukinn veruleiki (e. augmented reality) geta í dag gert heilbrigðisstarfsfólki kleift að vinna í sýndarveruleika sem er sérsniðinn fyrir læknisfræðilegar aðgerðir. Með verkefninu Efling heilbrigðismenntunar með notkun þrívíddarprentunar og sýndarveruleika (e. Advancing health education with 3D printing & VR) koma Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Landspítalinn saman til að þróa fræðslu- og þjálfunarvettvang sem byggir á þrívíddarprentun og sýndarveruleikatækni með það að markmiði að efla kennslu og þjálfun nemenda og heilbrigðisstarfsfólks. Stefnt er að því að innleiða notkun þrívíddarlíkana af líffærum og líffærakerfum inn í þjálfun sem fer fram í færni- og hermisetrum í Reykjavík og á Akureyri.

Erlend prófskírteini sannreynd með bitakeðjutækni

Notast verður við bitakeðju (e. blockchain) tækni til að sannreyna alþjóðleg prófskírteini, prófgráður og viðurkenningar. Markmið verkefnisins er að hjálpa fólki með erlendar prófgráður að sannreyna akademísk skírteini sín og auðvelda þannig þátttöku þess í íslensku menntakerfi og stuðla þannig að aukinni inngildingu í samfélagið. Verkefnið byggir annars vegar á að sannreyna skilríki og skírteini með bitakeðjutækni og hins vegar á stafrænu umbunarkerfi sem þróað hefur verið við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að örva áhuga á námi og sannreyna skírteini. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík koma að verkefninu en einnig er gert ráð fyrir samstarfi við Rauða krossinn.

Önnur verkefni sem fá úthlutun í flokknum Stjórnsýsla, stoðþjónusta og nýting innviða eru efling samstarfs um nám í landupplýsingafræði og fjarkönnun, miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, GAGNÍS - fræðsla, aukin þjónusta og umfang á sviði opinna vísinda og miðlunar þekkingar, samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um samvinnu til framgangs doktorsnáms við háskólana, sameiginleg leiðbeinendaþjálfun fyrir leiðbeinendur doktorsverkefna og rafræn miðlun fræðandi efnis um jafnréttismál.

---

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað fjármunum af safnlið háskólastigsins til samstarfsverkefna háskólanna með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Samstarf háskóla er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum er fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður hefur verið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum