Hoppa yfir valmynd
5. mars 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áframhaldandi vinna við að draga úr einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, hafa framlengt samning um framkvæmd tillagna aðgerðahóps gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Samningurinn var upphaflega gerður í kjölfar tillagna aðgerðahópsins sem birtar voru um mitt ár 2021 en tillögurnar miðuðu einkum að því að auka aðgengi að fræðsluefni, miðla þekkingu og þróa stafrænar lausnir fyrir vinnustaði.

Vinnueftirlitinu var falin framkvæmd tillagnanna sem miðstöð vinnuverndar í landinu. Ofangreindur samningur við stofnunina hefur nú verið framlengdur og fær Vinnueftirlitið tæpar 36 milljónir kr. á árinu vegna verkefnisins.

Tökum höndum saman

Vinnueftirlitið hefur síðastliðin ár lagt áherslu á að atvinnurekendur tryggi starfsfólki öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, einkum hvað varðar einelti og kynferðislega áreitni og ofbeldi, og hefur í því skyni staðið fyrir fræðslu og gefið út fræðsluefni og leiðbeiningar fyrir stjórnendur og starfsfólk.

Átaki gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum var hrint af stað undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman og var það hluti af framkvæmd tillagna aðgerðahópsins.

Verkfæri sem ætlað var að styðja bæði við stjórnendur og starfsfólk voru gerð aðgengileg og búin voru til upplýsingamyndbönd þeim til stuðnings. Þá var fræðsluefni útbúið fyrir atvinnurekendur sem og starfsfólk.

Sjá myndbönd hér:

„Við viljum áfram hvetja vinnustaði til að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu þar sem komið er í veg fyrir neikvæð samskipti. Jafnframt stendur til að endurtaka rannsóknina Valdbeiting á vinnustað frá árinu 2020 eins og aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum