Hoppa yfir valmynd
8. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Starfi sendinefndar utanríkisráðuneytisins í Kaíró lokið

72 dvalarleyfishafar frá Gaza komu til landsins í dag og hafa nú sameinast fjölskyldum sínum. Undanfarnar vikur hefur sendinefnd utanríkisráðuneytisins verið við störf í Egyptalandi til að greiða fyrir ferð hópsins yfir Rafah-landamærin, en til þess hefur þurft samþykki bæði egypskra og ísraelskra stjórnvalda. 

Utanríkisráðherra átti símafund með ísraelskum kollega sínum þann 28. febrúar síðastliðinn, en í framhaldi af samtalinu fékkst formleg staðfesting og samþykki til ferðar hóps dvalarleyfishafa þann 3. mars. Hópnum var liðsinnt yfir landamærin af íslensku sendinefndinni auk aðstoðarfólks og túlka þann 4. mars og nú í morgun var flogið áleiðis til Íslands.

Aðgerðin er umfram lagaskyldu stjórnvalda og almenna venju, enda jafnan í höndum einstaklinga sem hljóta dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að komast til Íslands fyrir eigin rammleik. Í ljósi aðstæðna á svæðinu var þó ákveðið að ráðast í einstaka aðgerð þessa efnis í kjölfar umfjöllunar í ráðherranefnd um innflytjendur og flóttamenn, en þar var lögð áhersla á einskiptisaðgerð sem ekki skapaði fordæmi eða umframþrýsting á íslensk kerfi. Á vettvangi nefndarinnar var enn fremur unnin ný heildarsýn í útlendingamálum.

Starfi sendinefndar utanríkisráðuneytisins er nú lokið á svæðinu, en áfram verður fylgst með stöðu mála.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum