Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á ársfundum Alþjóðabankans

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ávarpar kjördæmisfund Alþjóðabankans. - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur þátt í ársfundum Alþjóðabankans í Washington í dag og í gær en Ísland leiðir þátttöku kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þróunarnefnd bankans á árinu 2024. Utanríkisráðherra situr bæði hádegisverð og fund nefndarinnar og flytur þar ávarp fyrir hönd kjördæmisins. 

„Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin vinna náið saman á vettvangi Alþjóðabankans og í ávarpinu ítrekaði ég stuðning okkar við Úkraínu í varnarbaráttu sinni gegn árásarstríði Rússlands og lýsti yfir áhyggjum af hörmulegri stöðu mannúðarmála á Gaza,“ segir Þórdís Kolbrún. „Þessi átök, og sá efnahagslegi óstöðugleiki sem þeim fylgir, hefur ekki síst djúpstæð áhrif á fátækustu ríki heims, þar sem sárafátækt og ójöfnuður er að aukast, sérstaklega á meðal kvenna og stúlkna.“ 

Utanríkisráðherra, ásamt ráðherrum annarra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja átti fund með Ajay Banga, forseta Alþjóðabankans, þar sem hann fór yfir stöðu umbótavinnunnar og sýn sína á þróun bankans til framtíðar. Lýstu ráðherrarnir yfir einhuga stuðningi við þessa vinnu. 

Samhliða ársfundinum fundaði ráðherra með nokkrum fulltrúum úr yfirstjórn bankans, þar á meðal Akihiko Nishio, varaforseta Alþjóðabankans á sviði fjármögnununar þróunarmála, þar sem samningaviðræður um tuttugustu og fyrstu endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar, IDA, var til umræðu, en stofnunin sér um stuðning bankans við fátækustu ríki heims. Auk þess fundaði hún með Stefan Emblad, sem sér um málefni Palestínu hjá bankanum, en Ísland gerðist nýverið aðili að sjóð Alþjóðabankans sem styður við enduruppbyggingu og endurreisn innviða í Palestínu, einkum Gaza. Þá fundaði Þórdís Kolbrún með fulltrúum helstu samstarfssjóða Íslands þar sem samstarfssamningar á sviði  jafnréttismála og mannréttindamála voru endurnýjaðir, auk þess sem nýr samningur við verkefnið Women Business and the Law var undirritaður. 

Ráðherrafundur um stuðning við Úkraínu

Fimmti ráðherrafundur Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnar Úkraínu fór fram í tengslum við vorfundinn. Áhersla fundanna er efnahagslegur stuðningur við Úkraínu en í vor birti Alþjóðabankinn nýtt mat á kostnaði við enduruppbyggingu í Úkraínu sem nú er talið að muni nema 486 milljörðum bandaríkjadala. 

Í ávarpi sínu undirstrikaði ráðherra stuðning sinn við Úkraínu en stórum hluta efnahagsstuðnings Íslands við Úkraínu hefur verið varið um sjóði Alþjóðabankans. Þá greindi hún frá þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning við Úkraínu til fimm ára þar sem stuðningur Íslands við Úkraínu verður festur í sessi til langframa. „Alþjóðabankinn verður áfram lykilsamstarfsaðili þegar kemur að því að miðla efnahagslegum stuðningi okkar. Hlutverk bankans við að veita þann margþátta stuðning sem Úkraína þarfnast hefur aldrei verið mikilvægara,“ segir Þórdís Kolbrún.

 
  • Utanríkisráðherra ásamt Ajay Banga, forseta Alþjóðabankans.  - mynd
  • Frá undirritun samstarfssamnings á sviði jafnréttismála og um verkefnið Women Business and the Law. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum