Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar funda í NATO-Úkraínuráðinu

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu í NATO-Úkraínuráðinu komu saman á fjarfundi á föstudag til að ræða þróun stríðsins í Úkraínu. 

Forseti Úkraínu, Volodomír Selenskí, ávarpaði upphaf fundarins og hvatti ríkin til að auka stuðning við baráttu Úkraínu og varnir gegn loftárásum Rússlands. Þá gerði Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, grein fyrir þróun stríðsins og varnarviðbúnað úkraínska hersins. Bandalagsríkin áréttuðu áframhaldandi stuðning við loftvarnir landsins til að verjast stórfelldum árásum rússneska hersins á almenna borgara og borgaralega innviði, þar með talið orkukerfi landsins. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sat fundinn í fjarveru ráðherra. Í ávarpi sínu vísaði hann til vinnu við Úkraínustefnu stjórnvalda og áréttaði áframhaldandi stuðning við varnir landsins, meðal annars þjálfunarverkefni, kaup á hergögnum og framlög í sjóði.

NATO-Úkraínuráðið var sett á laggirnar á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Vilníus á síðasta ári. Ráðinu er ætlað að efla pólitískt samstarf við Úkraínu og leggja grunn að framtíðaraðild ríkisins að bandalaginu þegar aðstæður leyfa. Þannig mun ráðið styrkja pólitískt samráð og samvinnu, auk þess sem bandalagsríki munu halda áfram að styðja varnir Úkraínu og auka framlög til uppbyggingar.

Nánar má lesa um stuðning íslenskra stjórnvalda við Úkraínu hér.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum