Hoppa yfir valmynd
2. maí 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukin þátttaka fatlaðra í íþróttum

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, David Evangelista, framkvæmdastjóri Special Olympics í Evrópu, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og Edvard Þór Ingvarsson, fulltrúi iðkenda, við undirritun samstarfsyfirlýsingar - mynd

Mennta- og barnamálaráðuneytið undirritaði samstarfsyfirlýsingu við Special Olympics í Evrópu vegna Special Olympics Global Leadership Coalition for Inclusion þann 30. apríl síðastliðinn. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði yfirlýsinguna ásamt David Evangelista, framkvæmdastjóra Special Olympics í Evrópu, Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra Special Olympics á Íslandi, og Edvard Þór Ingvarssyni fulltrúa iðkenda.

Ísland var meðal stofnríkja Global Leadership Coalition for Inclusion sem ætlað er að auka þátttöku fatlaðra í íþróttastarfi en átakið beinist einnig að skóla- og samfélagsmálum. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ávarpaði stofnfundinn sem haldinn var í Berlín í júní 2023 í tengslum við heimsleika Special Olympics. Aðild Íslands að stofnfundinum í Berlín tengist þeim markmiðum sem unnið er að í tengslum við verkefnið ALLIR MEÐ og samstarfsyfirlýsingin Ísland tekur mið af því.

„Það er svo sannarlega tilefni til þess að fagna í dag. Þessi undirritun er stórt skref í vegferð okkar um að gera íþróttir aðgengilegar öllum. Það var mikill heiður að fá að hitta David Evangelista og við erum þakklát fyrir það metnaðarfulla starf sem á sér stað innan Special Olympics hreyfingarinnar. Að fá að vera hluti af ALLIR MEÐ verkefninu er mikill heiður,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið undirrituðu í desember 2022 samning til þriggja ára til stuðnings nýju verkefni, samstarfsverkefnið „Farsælt samfélag fyrir öll – brúum bilið“ . Verkefnið fór af stað í janúar 2023 undir heitinu ALLIR MEÐ með það markmið að efla íþróttaástundun fatlaðs fólks, þar sem horft er sérstaklega til fatlaðra barna og ungmenna. Íþróttasamband fatlaðra er ábyrgðaraðili verkefnisins sem er unnið í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Auk ráðuneytanna þriggja eru bakhjarlar verkefnisins ÖBÍ og Þroskahjálp. Stuðningur við verkefnið ALLIR MEÐ er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF).

„Þegar horft er til menntunar og félagslegrar aðlögunar er mikilvægt að við horfum til möguleika hvers barns til að það dafni á íþróttavellinum, í kennslustofunni og í samfélaginu sem heild. Með því að hlúa í sameiningu að möguleikum þeirra erum við ekki bara að byggja upp sterkari samfélög heldur líka að styrkja komandi kynslóðir þar sem fjölbreytileikanum er fagnað og án aðgreiningar,“ segir David Evangelista, framkvæmdastjóri Special Olympics í Evrópu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum