Hoppa yfir valmynd
7. maí 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Efla þarf norrænt samstarf gegn sýklalyfjaónæmi


Norrænir heilbrigðisráðherrar eru einhuga um nauðsyn þess að styrkja norrænt samstarf gegn sýklalyfjaónæmi. Svíþjóð fer á þessu ári með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og mun m.a. leggja sérstaka áherslu á að tryggja greiðari og öruggari aðgang að sýklalyfjum. Þetta var meðal umræðuefna á árlegum fundi ráðherranna í Stokkhólmi. Stefnt er að því uppfæra og innleiða þverfaglega yfirlýsingu um sýklalyfjaónæmi sem norræna ráðherranefndin samþykkti árið 2015 og fjallar um þessi mál í víðu samhengi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra lagði áherslu á það í ræðu sinni á ráðherrafundinum hve mikill ávinningur gæti falist í samstarfi lítilla markaðssvæða eins og Norðurlandanna: „Við Íslendingar höfum barist fyrir samnorrænum lyfjapakkningum með rafrænum fylgiseðlum sem fara hindrunarlaust yfir landamæri þjóðanna. Með því verður markaðssvæðið stærra og áhugaverðara fyrir lyfjaframleiðendur sem leiðir til betra aðgengis og lægri framleiðslukostnaðar.“

Aðgerðir gegn ónæmi nauðsynlegar

Willum Þór sagði einnig frá nýlegri aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda sem fjallar um hvernig sporna megi við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis: „Þverfaglegur hópur sérfræðinga voru fengnir til að móta þessa áætlun sem í mínum huga var mikilvægt forgangsmál. Niðurstaðan er heildstæð, vönduð, kostnaðarmetin áætlun sem tekur á öllum þeim þáttum sem mikilvægastir eru í til að sporna við þessari heilbrigðisógn og tekur mið af þeirri staðreynd að ónæmar bakteríur virða ekki landamæri.“ 

Ísland, Noregur og Danmörk réðust nýlega í sameiginlegt lyfjaútboð þar sem gerðar eru sérstakar kröfur varðandi sýklalyf með áherslu á að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Að þessu sinni verða  settar sérstakar kröfur varðandi sýklalyfin sem fela m.a. í sér að lyfin séu framleidd eftir tilteknum stöðlum sem tryggja að sýklalyfjamengun berist ekki út í umhverfið við framleiðslu þeirra. Markmiðið er að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis sem er vaxandi vandamál víða um heim.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum