Hoppa yfir valmynd
9. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íslenska til framtíðar: Fundað með Microsoft og AI 2 í Seattle

Íslenska sendinefndin sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra leiðir - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra leiðir íslenska sendinefnd sem stödd er á vesturströnd Bandaríkjanna og mun næstu daga funda með alþjóðlegum tæknifyrirtækjum á borð við Microsoft, Google og OpenAI. Ferðinni er ætlað að tryggja enn frekar stöðu íslenskunnar hjá tæknifyrirtækjunum ásamt því að kynna máltækniáætlun stjórnvalda og vekja athygli á stöðu smærri tungumála með áherslu á íslensku og tækifæri tengd henni.

Auk menningar- og viðskiptaráðherra er sendinefndin skipuð Lilju Dögg Jónsdóttur framkvæmdastjóra Almannaróms, Björgvini Inga Ólafssyni formanni stýrihóps um næstu máltækniáætlun, Páli Ásgeiri Guðmundssyni forstöðumanni Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmi Þorsteinssyni stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar, Lindu Heimisdóttur framkvæmdastjóra Miðeindar, Önnu Björk Nikulásdóttur forstjóra Grammatek, Guðrúnu Nordal forstöðumanni Árnastofnunar, Steinþóri Steingrímssyni verkefnastjóra hjá Árnastofnun, Jóni Guðnasyni prófessor við HR og eiganda Tiro ehf., Hafsteini Einarssyni lektor við HÍ og Óttari Kolbeinssyni Proppé sérfræðingi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Forseti Íslands og menningar- og viðskiptaráðherra leiddu sambærilega sendinefnd með íslenskuna að leiðarljósi í maí 2022 sem skilaði sér meðal annars í farsælu samstarfi við fyrirtækið OpenAI um að þjálfa mállíkanið Chat GPT-4 sérstaklega í íslensku.

Fjárfesting til framtíðar og alþjóðlegt samstarf 

Meginmarkmið ferðarinnar er að koma íslenskunni að hjá helstu tæknifyrirtækjum og kynna íslenskar máltæknilausnir sem gefnar eru út undir opnum leyfum. Tilgangur þessarar fjárfestingar stjórnvalda er að greiða fyrir því að íslenska verði með í nýjum tæknilausnum sem koma á markað. Það er í samræmi við áherslur nýrrar máltækniáætlunar þar sem lagt er til að aukinn þungi verði settur í að kynna íslenska máltækni á erlendri grundu. Jafnframt er verið að kanna hug þessara fyrirtækja til að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi fyrir smærri tungumál heims.

„Við viljum festa íslenskuna í sessi og halda áfram að koma henni að í lausnum erlendra tæknifyrirtækja sem Íslendingar nota í sínu daglega lífi. Samhliða erum við kanna áhuga á alþjóðlegum samstarfsvettvangi fyrir minni málsamfélög og stór tæknifyrirtæki, sem Ísland myndi leiða," segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Íslensk máltækni nýtist Microsoft

Ráðherra fundaði ásamt hluta sendinefndarinnar og Axel Þór Eysteinssyni, sölustjóra Microsoft á Íslandi, með Scott Guthrie, aðstoðarframkvæmdastjóra Microsoft Cloud og AI Group hjá Microsoft, í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Seattle á þriðjudag. Fyrirtækið hefur sýnt íslenskunni mikinn áhuga og má til dæmis nefna að ýmis forrit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota alfarið á íslensku.

„Í kjölfar fyrri heimsóknar okkar hefur Microsoft nú þegar innleitt íslenska máltækni í tæknilausnir sínar til að auka gæði íslenskunnar. Meðal þess sem við ræddum í gær var forritið Copilot og var vel tekið í ákall okkar um að koma íslenskunni þar að. Ég ítrekaði einnig vilja okkar til að leggja þessu verkefni enn frekari lið í gegnum máltækniáætlun stjórnvalda og vöktum við máls á þeirri hugmynd að koma á laggirnar samstarfsvettvangi fyrir smærri tungumál. Fulltrúar Microsoft sögðust sömuleiðis hafa áhuga á enn frekara samstarfi. Það hafa því vissulega unnist áfangasigrar en frekari árangur kallar á breiða samvinnu með virkri þátttöku almennings, vísindafólks, fræðasamfélagsins, fyrirtækja og frumkvöðla á þessu sviði,” segir ráðherra og bætir við að fundurinn hafi verið ákaflega ánægjulegur, ekki síst þar sem tilkynnt var um nýja uppfærslu sem verður kynnt í vikunni og snýr að íslensku.

Á sama tíma fór fram fundur með tæknisérfræðingum stjórnvalda og sérfræðingateymi Microsoft Copilot.

Fundinn sátu einnig Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi Miðeindar og Óttar Kolbeinsson Proppé, sérfræðingur hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu ásamt Eric Boyd, Marcin Junczys-Dowmunt og Axel Þór Eysteinssyni frá Microsoft.

Fundinn sátu einnig Lilja Dögg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms, Vilhjálmur Þorsteinsson stofnandi Miðeindar og Óttar Kolbeinsson Proppé sérfræðingur hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, ásamt Eric Boyd, Marcin Junczys-Dowmunt og Axel Þór Eysteinssyni frá Microsoft. 

Fjárfesting í máltækni opnar dyr

Sendinefndin fundaði einnig með Ali Farhadi, framkvæmdastjóra sjálfseignarstofnunarinnar Allen Institute for AI (AI2) auk Nicole DeCario, Noah Smith og Sophie Lebrecht. Stofnunin var sett á laggirnar af Paul Allen, einum stofnenda Microsoft og vinnur að því að efla og flýta fyrir framförum á sviði gervigreindar með rannsóknum, þróun og aðgengilegum gagnagrunns- og forritalausnum fyrir vísindamenn og fyrirtæki ásamt því að rannsaka og þróa tæknilausnir í máltækni. Sem stendur eru þær lausnir eingöngu aðgengilegar á ensku en tilgangur fundarins var að kanna möguleika á samstarfi með það að leiðarljósi að koma að smærri tungumálum á borð við íslensku.

Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunnar segir það ákaflega spennandi að sjá okkar forna tungumál í forystuhlutverki. „Löng hefð er fyrir því að vinna með handrit og heimildir á íslensku og sá menningarlegi bakgrunnur skilar sér listavel í stafrænum heimi. Íslendingar eru framúrskarandi í skrásetningu og viðhaldi á tungumálinu okkar og það er einstakt að upplifa að sömu orð séu nú til á skinni og í stafrænum heimi gervigreindar.”

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum