Hoppa yfir valmynd
10. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu samþykkt – Íslenska handa öllum

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu samþykkt – Íslenska handa öllum - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Alþingi samþykkti á miðvikudaginn aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu til ársins 2026. Alls er um að ræða 22 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta, en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins. Aðgerðaáætlunin segir jákvætt viðhorf til tungumálsins vera kjarna íslenskrar málstefnu og feli í sér viljann til þess að varðveita tungumálið og um leið og íslenska sé löguð meðvitað og skipulega að nýjum aðstæðum.

„Fjallað er um mikilvægi stuðnings við íslenska tungu í stjórnarsáttmála. Þar er lögð áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Íslenskan sé dýrmæt auðlind sem eigi að vera skapandi og frjór hluti af umhverfinu. Tekið er sérstaklega fram að huga þurfi að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni,“ segir í inngangi áætlunarinnar.

 

Lifandi verkefni kallar á stöðugt símat 

„Áætlunin er metnaðarfull og aðgengileg sem að okkar mati mun tryggja að aðgerðir skili sér af blaði á staði. Til dæmis er tilraunaverkefni hluti af aðgerðaráætluninni þar sem tungumálið er lifandi og þarf því stöðugt að leita nýrra leiða til að þróast með því og tryggja símat við þá vinnu. Hvað er að virka, og hvað ekki? Dæmi um slíka vinnu er endurskipulagning á íslenskukennslu fyrir erlenda starfsmenn sem vinna með öldruðum, sjúkum eða fötluðu fólki á sjúkrastofnunum, dvalarheimilum og/eða í heimahúsum. Leggur áætlunin upp með að unnið verði tilraunaverkefni þar sem kennt verði á tveimur tungumálum og jafnframt verði þróaður jafningjastuðningur,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaáðherra.

Lilja er stödd í Bandaríkjunum þar sem hún fer fyrir íslenskri sendinefnd um máltækni en mikil áhersla er lögð á að nýjasta tækni verði aðgengileg á íslensku. Því hefur sendinefndin fundað stíft síðustu daga með hátæknifyrirtækjum þar í landi sem eru leiðandi í framleiðslu á eftirsóknarverðum hugbúnaði. „Það er í mörg horn að líta þegar kemur að viðhaldi og þróun íslenskunnar. Ég tel máltækni þar vera eitt af lykilatriðunum enda hefur sú þrotlausa vinna hérlendis fært okkur fjölda hjálpartækja í íslensku og komið okkar tungumáli á kortið hjá leiðandi fyrirtækjum í tækniþróun og gervigreind. Við verðum að hafa tæknina með okkur í liði til þess að geta þróað tungumálakennslu og gert hana aðgengilega.“

Meðal lykilaðgerða í áætluninni eru:

• Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu
• Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
• Innleiðing rafrænna stöðuprófa í íslensku.
• Framtíð máltækni – nýjasta tækni á íslensku samkvæmt Máltækniáætlun
• Aukin talsetning og textun á íslensku.
• Sameiginlegt fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli.
• Íslenska handa öllum - gerðar verði kröfur um að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku og hvatar til þess efldir.
• Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi.
• Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum starfsfólks í heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinum.
• Vefgátt fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir öll skólastig.
• Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með sérstakri áherslu á íslensku sem annað mál.
• Fjarnám í íslensku á BA-stigi.

Aðgerðaáætlunin hefur tengsl við mörg áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu til 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslu og aðgerðaáætlun um ferðaþjónustu til 2030.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum