Hoppa yfir valmynd
12. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Loftslagsverkefni Íslands í Úganda þegar farið að skila árangri

Ný og betri skólaeldhús sem greidd eru af íslensku þróunarfé hafa verið sett upp í tuttugu grunnskólum á Karamoja-svæðinu í Úganda undanfarna mánuði. Með þessu næst fram verulegur sparnaður á eldivið auk þess sem stuðlað er að fæðuöryggi skólabarna. Til stendur að endurbæta rúmlega fimmtíu skólaeldhús til viðbótar á svæðinu áður en árið er liðið fyrir fjárframlög frá Íslandi. 

Sendiráð Íslands í Kampala undirritaði í ársbyrjun samning til eins árs við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme – WFP) á sviði loftslagsmála í Úganda. Orkusparandi eldunaraðstaða verður sett upp samtals í 74 skólum og þúsundir trjáa gróðursett á einu snauðasta svæði landsins, Karamoja sem er í norðausturhluta þess.

„Það er alltaf ánægjulegt að sjá verkefni bera jafn skjótan og áþreifanlegan árangur eins og þessi samvinna Íslands og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í Úganda. Breytt loftslag og neikvæðar afleiðingar þess eru stöðugt í brennidepli og hafa þess vegna fengið meira vægi í allri þróunarsamvinnu Íslands. Það skiptir gríðarlegu máli enda koma afleiðingar loftslagsbreytinga jafnan verr niður á konum og börnum, ekki síst í fátækari ríkjum eins og Úganda,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Alþjóðahreyfing Lions styður einnig uppbygginguna

Nú þegar verkefnið er rétt tæplega hálfnað hefur orkusparandi eldunaraðstaða verið sett upp í tuttugu skólum í héruðunum Amudat, Kaabong og Moroto og húsakynnin endurbætt þar sem þess hefur þurft. Fyrr í mánuðinum fóru fulltrúar sendiráðsins á vettvang til að kynna sér framgang verkefnisins og tók Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður þátt í athöfnum í tveimur skólum þar sem eldhúsin voru formlega tekin í notkun.

„Það var magnað að sjá með eigin augum hversu miklu þessi nýja aðstaða breytir. Í fyrsta lagi nota nýju eldavélarnar aðeins þriðjung af þeim eldivið sem þurfti áður, sem þýðir bæði minni losun gróðurhúsalofttegunda og færri tré sem höggvin eru niður. Af þessu leiðir líka að skólarnir geta notað þá fjármuni sem sparast í þarfari hluti. Þá hefur aðstaða starfsfólks, sem áður vann í reykjarsvælu, stórbatnað. Síðast en ekki síst stuðlum við nú að því að tryggja börnum næringarríkar skólamáltíðir en vannæring hefur verið viðvarandi vandamál hér í Karamoja. Krakkarnir sem við hittum töluðu einmitt um að maturinn gerði þau bæði hraustari og hressari og lýstu yfir mikilli ánægju með nýju skólaeldhúsin,“ segir Hildigunnur.

Árangurinn af verkefninu er raunar þegar farinn að vekja athygli því alþjóðahreyfing Lions ætlar að styðja við uppsetningu orkusparandi eldunaraðstöðu í um fjörutíu skólum til viðbótar við þá 74 sem Ísland styður í Karamoja. Alls verða því skólarnir 113 sem á næstu misserum verða komnir með umhverfisvænni eldunaraðstöðu.

Samhliða þessu er áformað að 400.000 loftslagsþolin akasíu- og dísartré verði gróðursett í nágrenni við skólana. Fulltrúar sendiráðsins lögðu sitt af mörkum og gróðursettu tré í öllum skólunum sem þeir heimsóttu.

Mikil fátækt og skólasókn léleg

Fátækt er óvíða meiri í Úganda en á Karamoja-svæðinu. Þrír af hverjum fjórum íbúum lifa við mikla fátækt og skólasókn barna er almennt léleg. Þá hefur umhverfi á svæðinu hnignað jafnt og þétt, meðal annars af völdum skógarhöggs vegna kolavinnslu.

Verkefnið með WFP er í samræmi við þróunaráætlun Úganda og stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, sérstaklega þeim markmiðum er snúa að umhverfis- og loftslagsmálum. Verkefnið styður jafnframt við markmið um bætta menntun, námsumhverfi og næringu barna.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er áherslustofnun fyrir mannúðaraðstoð Íslands og er jafnframt samstarfsaðili í heimaræktuðum skólamáltíðum í tvíhliða samstarfslöndunum Malaví og Síerra Leóne. Þá leiðir Ísland ásamt öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna svokallað Skólamáltíðarbandalag.

  • Loftslagsverkefni Íslands í Úganda þegar farið að skila árangri - mynd úr myndasafni númer 1
  • Loftslagsverkefni Íslands í Úganda þegar farið að skila árangri - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum