Hoppa yfir valmynd
27. júní 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Nýr fjarskiptalæknir styrkir bráðaþjónustu á landsvísu

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar fjarskiptalækni bráðaþjónustu. Um er að ræða faglega ráðgjöf bráðalæknis fyrir Neyðarlínu, sjúkraflutninga og aðra veitendur bráðrar heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Landspítalanum var falið að koma þjónustunni á laggirnar og styðja við bakið á þessari nýju þjónustu, og hefur fjarskiptalæknirinn þegar tekið til starfa.

Fjarskiptalæknir er forgangsaðgerð í skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, sem skipað var af heilbrigðisráðherra árið 2022 og skilaði 39 tillögum til að efla bráðaþjónustu á landinu.

„Aukið og jafnt aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu við slys eða bráð veikindi er forgangsatriði og í samræmi við stefnu stjórnvalda. Það er því mikilvægt að styðja við þessa þjónustu í dreifðum byggðum og í sjúkraflutningum. Þetta verkefni verður þróað áfram í samráði við notendur þjónustunnar, með það að markmiði að bjóða upp á sólarhringsþjónustu, alla daga ársins. Þetta styrkir bráðaþjónustu í landinu svo um munar, í takt við skýrslu viðbragðsteymisins“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Með verkefninu er tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti til þess að sinna bráðri læknisfræðilegri ráðgjöf. Fjarskiptalæknirinn sinnir 1) læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga, 2) bráða-læknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli, 3) fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir, auk 4) faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til 5) ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu.

Fjarskiptalæknir er staðsettur í Björgunarmiðstöðinni í Skógahlíð og veitir faglega ráðgjöf fyrir Neyðarlínu, læknisfræðilega stjórnun, ráðgjöf við sjúkraflutninga, ráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýlum, vettvangsliða og björgunarsveitir í bráðum tilfellum. Í upphafi verður þjónusta fjarskiptalæknis í boði frá kl. 8-16 alla virka daga sem er mesti álagstími bráðatilvika, en stefnt er að því til framtíðar að bjóða upp á þjónustuna allan sólarhringinn, allan ársins hring. Tilraunaverkefnið verður metið í lok árs 2024 og ákvörðun tekin um framhaldið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum