Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stærstu breytingar á háskólum í áratugi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur samþykkt árangurstengda fjármögnun háskóla á Íslandi sem markar veigamestu breytingar á starfsumhverfi þeirra í áratugi. Breytingarnar fela meðal annars í sér aukinn stuðning við heilbrigðisvísindi og margvíslega hvata fyrir háskóla: eins og til að auka gæði náms, styðja nemendur í gegnum skólagöngu, sækja fram í rannsóknum, nútímavæða kennsluhætti og afla alþjóðlegra styrkja svo fátt eitt sé nefnt.

Háskólasamfélagið á Íslandi hefur lengi kallað eftir endurskoðun á fjármögnun skólanna sem byggt hefur á reiknilíkani frá árinu 1999. Jafnframt hafði Ríkisendurskoðun hvatt til breytinga á kerfinu allt frá árinu 2007, með það að markmiði að skilvirkni, gagnsæi og gæði yrðu aukin. Þrátt fyrir þetta ákall tók fyrra fjármögnunarlíkan háskólanna óverulegum breytingum undanfarinn aldarfjórðung, á meðan samfélagið og væntingar nemenda hafa tekið stakkaskiptum.

„Í ljósi þessarar löngu sögu er óhætt að segja að þessar breytingar séu stór áfangi. Með samþykkt þeirra er tekið eitt stærsta skref í átt að því að efla íslenska háskóla og búa til hvata til aukinna gæða og árangurs. Ég trúi því að með árangurstengdri fjármögnun aukum við samkeppnishæfni Íslands til framtíðar,“ segir Áslaug Arna

Viðamikið samráð

Breytingarnar voru unnar í nánu samstarfi við háskólasamfélagið, jafnt starfsfólk sem nemendur, og hefur háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið unnið úr þeim ábendingum sem bárust um málið þegar það var fyrst kynnt opinberlega síðasta haust. Afrakstur þeirrar vinnu eru nýju reglurnar, sem nefndar eru árangurstengd fjármögnun, og munu þær taka gildi fyrir næsta skólaár. Reglurnar voru birtar í Stjórnartíðindum í dag.

Meðal veigamestu breytinganna sem urðu á fjármögnuninni í fyrrnefndu samráðsferli eru að 23 námsleiðir færast upp um reikniflokk frá því sem upphaflega var kynnt. Má þar meðal annars nefna meistara- og doktorsnám í hjúkrunarfræði, meistaranám í sjúkraþjálfun og ljósmóðurfræði sem allt færist í reikniflokk D. Þá eru 19 aðrar námsleiðir sem færast úr reikniflokki A í B. Þá er fjármögnun sem lýtur að samfélagslegu hlutverki háskóla betur skilgreind.

Árangur af nýju verklagi

Við undirbúning kerfisbreytinganna var lagt upp með að þær skyldu vera gagnsæjar og einfaldar, stuðla að auknum gæðum, vera árangurstengdar, mælanlegar og auka stöðugleika í fjárveitingum til háskóla. Að sama skapi var þeim ætlað að fela í sér hvatningu og umbun til háskólanna fyrir að styðja við nemendur sína til að ná árangri í námi og hlúa betur að samfélagslegu hlutverki sínu.

„Árangurstengd fjármögnun nær þessum markmiðum og gott betur. Því er ekki síst að þakka víðtæku samráði og góðu samstarfi við háskólasamfélagið, auk þess sem nýtt verklag ráðuneytisins hefur skipt sköpum í þessari vinnu. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá jafn viðamiklar kerfisbreytingar verða að veruleika á ekki lengri tíma,“ segir Áslaug Arna.

Sem fyrr segir fela nýju reglurnar í sér umtalsverða breytingu frá fyrra fyrirkomulagi fjármögnunar háskóla. Af þeim sökum er í nýju reglunum kveðið á um endurskoðun á fyrirkomulaginu að þremur árum liðnum, með það að markmiði að breytingarnar skili þeim árangri sem stefnt er að í þágu háskóla og samfélags.

Fleiri breytingar í farvatninu

Þetta eru ekki einu breytingarnar á háskólaumhverfinu sem hafa átt sér stað á undanförnum misserum. Fjármagn til háskólastigsins hefur verið stóraukið á liðnum árum og mun það áfram aukast út gildistíma nýrrar fjármálaáætlunar. Sjálfstætt starfandi háskólum var jafnframt boðið að fella niður skólagjöld, gegn afnámi skólagjalda, og fyrir vikið munu Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst ekki innheimta skólagjöld á komandi skólaári. Þá hefur samstarf háskóla verið stóraukið sem birtist meðal annars í sameiningaviðræðum milli Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst annars vegar og Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum hins vegar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum