Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ljósleiðaravæðing í þéttbýli og háhraðafarnet á stofnvegum tryggt – hlutverki fjarskiptasjóðs lokið og hann lagður niður

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fer með málefni fjarskipta, hefur kynnt ríkisstjórn ákvörðun sína um að framlengja ekki líftíma fjarskiptasjóðs. Að öllu óbreyttu munu lög um fjarskiptasjóð því falla brott við lok þessa árs og hættir starfsemi sjóðsins frá sama tíma.

Fjarskiptasjóður hóf störf í ársbyrjun 2006 í kjölfar sölu á hlut ríkisins í Símanum hf. Samkvæmt lögum um sjóðinn hefur hann það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála. Frá upphafi hefur meginhlutverk sjóðsins verið að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins ás viði fjarskipta og annarra verkefna sem ætla má að verði ekki ráðist í á markaðsforsendum. Lögin kváðu upphaflega á um niðurlagningu sjóðsins með brottfalli laganna í árslok 2011 en gildistími þeirra, og þ.a.l. líftími fjarskiptasjóðs, hefur reglulega verið framlengdur. 

Lokastyrkveiting fjarskiptasjóðs fór fram vorið 2021 á grundvelli Ísland ljóstengt átaks stjórnvalda. Starfsemi sjóðsins hefur verið í lágmarki frá þeim tíma. Ný stefna stjórnvalda í fjarskiptum var samþykkt síðasta haust og fékk sjóðurinn þá það hlutverk að styðja við markmið um að öll lögheimili eigi kost á ljósleiðaratengingu. Í júlí á þessu ári sendi sjóðurinn sveitarfélögum tilboð um stuðning við uppbyggingu ljósleiðaraneta utan markaðssvæða í öllu þéttbýli.

„Nú þegar við klárum úthlutun til sveitarfélaga til að klára ljósleiðaravæðingu tel ég ekki þörf á fjarskiptasjóði og tel rétt að leggja hann niður. Enda átti upphaflega að leggja hann niður 2011. Árangurinn af ljósleiðaraverkefnum og stórfelldri uppbyggingu hérlendis í málaflokknum er þó óumdeildur,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra fjarskiptamála.

Með samningum fjarskiptasjóðs við sveitarfélög hafa stjórnvöld tryggt framgang þeirra tveggja stóru uppbyggingarverkefna á sviði fjarskipta sem sett voru á oddinn á kjörtímabilinu; annars vegar uppbyggingu ljósleiðara í öllu þéttbýli og hins vegar uppbyggingu samfellds háhraðafarnets gagnvart öllum stofnvegum. Með vísan til þessa telur ráðuneyti fjarskiptamála ekki augljósan tilgang með rekstri fjarskiptasjóðs frá og með árinu 2025 og því er ekki stefnt að framlengingu sólarlagsákvæðis í lögum um sjóðinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum