Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stuðningur við EDUCHANGE rannsókn á áhrifum félags- og efnahagslegrar stöðu nemenda á námsframvindu

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Dr. David Reimer prófessor og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrita viljayfirlýsingu í Háskóla Íslands í dag - mynd

Mennta- og barnamálaráðuneytið styður við framkvæmd rannsóknarverkefnisins EDUCHANGE í viljayfirlýsingu sem undirrituð var í Háskóla Íslands í dag. Markmið verkefnisins er að draga úr áhrifum félags- og efnahagslegrar stöðu nemenda á námsframvindu þeirra og tækifæri til menntunar og auka þannig jöfnuð til lengri tíma. Viljayfirlýsingin undirstrikar festu og vilja ráðuneytisins að draga úr ójöfnuði í menntun og styðja við öfluga innlenda rannsóknarstarfsemi.

Niðurstöður úr PISA 2022 sýndu glöggt þörfina á slíkri rannsókn þar sem sjá mátti merki um minnkandi félagslegan hreyfileika og aukinn stéttamun í tækifærum til menntunar og starfa á Íslandi. Verkefnið fellur vel að markmiðum aðalnámskráa sem fjalla um jafna stöðu nemenda eftir stéttum og bakgrunni og aðgerðum stjórnvalda á grundvelli menntastefnu til ársins 2030.

EDUCHANGE er inngripsrannsókn sem annars vegar fer fram á meðal nemenda sem eru að ljúka grunnskólagöngu sinni og hins vegar á meðal nemenda sem eru að ljúka framhaldsskólagöngu sinni. Nemendum verður veitt fræðsla á skólatíma sem miðar að því að veita upplýsingar um þá kosti og áskoranir sem felast í áframhaldandi námi á næsta skólastigi.

Verkefnið hefur hlotið styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) og er leitt af David Loic Daniel Reimer, prófessor í félagsfræði menntunar við Háskóla Íslands.

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun aðstoða rannsakendur við að fá aðgang að þeim skólum sem lenda í úrtaki rannsóknarinnar og að samþættum gögnum yfir rannsóknartímabilið sem nýtast til að bera saman þá nemendur sem fengu inngripið við samanburðarhóp.

Rannsakendur munu veita mennta- og barnamálaráðuneytinu upplýsingar um framvindu rannsóknarinnar og kynningu á frumniðurstöðum jafnóðum og þær liggja fyrir á rannsóknartímanum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum