Hoppa yfir valmynd
16. maí 2025

Schengen-stöðuskýrsla, rýni erlendra fjárfestinga o.fl.

Að þessu sinni er fjallað um:

  • Schengen-stöðuskýrslu fyrir árið 2025
  • tillögu um rýni erlendra fjárfestinga
  • opið samráð um mótvægisaðgerðir ESB vegna tollastefnu BNA
  • samkomulag um ráðstafanir til að draga úr örplastmengun
  • áform um samræmdar evrópskar prófgráður
  • einföldun regluverks á sviði landbúnaðarmála
  • áætlun um að hætta öllum orkuinnflutningi frá Rússlandi
  • óformlegan fund orkumálaráðherra
  • 75 ára afmæli Schuman-yfirlýsingarinnar

 

Schengen-stöðuskýrsla fyrir árið 2025

Hinn 23. apríl sl. gaf framkvæmdastjórn ESB út Schengen stöðuskýrslu fyrir árið 2025 (e. 2025 State of Schengen Report). Þetta er í fjórða skipti sem framkvæmdastjórnin gefur út skýrslu af þessu tagi en fjallað var um hinar í Vaktinni 17. maí 2024, 26. maí 2023 og 22. júní 2022. Í skýrslunni er farið yfir framgang mála á vettvangi samstarfsins á síðastliðnu ári ásamt því sem helstu forgangsmál þess fyrir næsta starfsár eru tilgreind.

Í sumar verða liðin 40 ár frá undirritun Schengen-samningsins, en samningurinn var undirritaður í bænum Schengen í Lúxemborg 14. júní 1985. Á þessum fjórum áratugum hefur samstarfið fært borgurum aðildarríkja þess umtalsverðan ávinning. Samstarfið er t.d. mikilvægt fyrir innri markað ESB og auðveldar daglegt líf um 450 milljóna manna. Þá voru um 40% alþjóðlegra ferðalaga árið 2024, eða ferðir um 500 milljóna einstaklinga, til Schengen-svæðisins sem gerir svæðið að mest sótta áfangastað heims. Á þessum tíma hefur Schengen-samstarfið þróast í öflugt og heildstætt kerfi þar sem aðildarríki þess reka saman skilvirka stjórnun ytri landamæra, öryggis- og fólksflutningakerfi.

Álitið er að aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen-samstarfinu sem kom að fullu til framkvæmda 1. janúar 2025 muni styrkja efnahag ESB til muna og sýni vilja aðildarríkja til að efla samstarfið innan Schengen. Sjá umfjöllun um Schengen-aðild Búlgaríu og Rúmeníu í Vaktinni 19. janúar 2024. Þá eru skilyrðin fyrir aðild að Schengen orðin að lykilforsendu í stækkunarferli ESB, þ.e. nú þurfa umsóknarríki að vera með fullburða Schengen stjórnkerfi (e. fully functioning national Schengen governance system) áður en þau ganga í sambandið. Loks er talið að auknar aðgerðir ESB og samstarfsríkja Schengen hafi skilað sér í verulegri fækkun á komum fólks í óreglulegri för yfir ytri landamæri svæðisins.

Í skýrslunni kemur fram að almennt sé Schengen-regluverkið innleitt með fullnægjandi hætti innan aðildarríkjanna. Áfram verði þó unnið að því að:

  • Bæta ferla við innleiðingu og framkvæmd regluverks. Framkvæmdastjórn ESB mun fylgjast með framförum aðildarríkja við að innleiða regluverk Schengen og styrkja enn frekar eftirlits- og úttektarkerfi sitt.
  • Flýta stafvæðingu samstarfsins. Áfram þurfi að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun til að tryggja að samstarfið sé rekið með nútímalegum hætti. Ljúka þurfi innleiðingu komu- og brottfararkerfisins (e. Entry/Exit System) og evrópska ferðaupplýsinga- og ferðaheimildarkerfisins (e. ETIAS).
  • Aðlaga kerfið að breyttu öryggisumhverfi. Bæta þarf upplýsingamiðlun milli aðildarríkja, m.a. um niðurstöður áhættugreininga og stöðumats, og auka samstarf löggæsluyfirvalda með samræmdum aðgerðum. Samkvæmt nýrri stefnu ESB í innri öryggismálum, sem fjallað var um í Vaktinni 4. apríl sl., hyggst framkvæmdastjórn ESB m.a. stofna hóp háttsettra einstaklinga (e. High-Level Group) til að rýna og huga að framtíð löggæslusamstarfs á Schengen-svæðinu.
  • Bæta undirbúning (e. preparedness) utan ytri landamæra svæðisins. Auka þarf samstarf við samstarfsríki í nágrenni Evrópu. Bæði Europol og Frontex hafa nýlega aukið samstarf og stuðning sinn við mikilvæg þriðju ríki og umsóknarríki að ESB.
  • Auka skilvirkni endursendinga. Þó að endursendingum ríkisborgara þriðju ríkja hafi fjölgað um nær 12% árið 2024 þá er talin þörf á því að ná meiri árangri á því sviði. Framkvæmdastjórn ESB framkvæmdi nýlega þemaúttekt á sviði endursendinga þar sem leitast var við að greina bestu aðferðir (e. best practices) til að auka skilvirkni endursendinga.
  • Samræma aðgerðir innan Schengen-svæðisins. Hröð og skilvirk upplýsingaskipti milli löggæsluyfirvalda eru eitt öflugasta tækið til að til að fyrirbyggja og berjast gegn glæpum. Til staðar eru öflug kerfi, svo sem evrópska landamæragæslukerfið (e. EUROSUR) og Schengen-upplýsingakerfið (e. Schengen Information System), en framkvæmdastjórn ESB og samræmingaraðili Schengen (e. Schengen Coordinator) munu áfram styðja aðildarríki við aukið löggæslusamstarf.

Samkvæmt framansögðu verður næsta Schengen lota (e. Schengen cycle) helguð því að styrkja stjórnskipun, samræma samstarf lögreglu og hraða stafrænum umbreytingum. Þá verður skýrslan til sérstakrar umræðu á fundi dóms- og innanríkismálaráðherra á vettvangi ráðherraráðs ESB í Lúxemborg 12.-13. júní nk. og lagt er upp með að ráðherrar samþykki fyrrgreind áherslumál.

Afstaða Evrópuþingsins til tillagna um rýni erlendra fjárfestinga

Þann 24. janúar 2024 birti framkvæmdastjórn ESB tillögu að reglugerð um samræmt rýniferli erlendra fjárfestinga innan ESB en fjallað var um tillöguna og umsögn EES/EFTA ríkjanna um hana í Vaktinni 2. febrúa 2024 og 7. mars 2025. Með tillögunni er rýniferlið samræmt milli aðildarríkja ESB til að tryggja allsherjarreglu og efnahagslegt öryggi ESB en núgildandi kerfi ESB er frá árinu 2020.

Evrópuþingið hefur á liðnum mánuðum haft málið til umfjöllunar og greiddi þingið atkvæði um afstöðu til málsins þann 8. maí sl. Evrópuþingið styður tillögu framkvæmdastjórnarinnar í meginatriðum en leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á henni sem eiga það sammerkt að ganga lengra en tillagan gerði ráð fyrir. Um er að ræða þrjár megin breytingartillögur

Í fyrsta lagi leggur Evrópuþingið til að framkvæmdastjórn ESB fái auknar valdheimildir m.a. til að geta skorið á hnútinn þegar aðildarríki og framkvæmdastjórnin reynast ósammála um niðurstöður fjárfestingarýni og hvort setja skuli skilyrði fyrir eða banna fjárfestingu. Einnig er lagt til að framkvæmdastjórnin geti aflað gagna frá aðilum fjárfestingarýninnar beint og þurfi ekki að fá atbeina stjórnvalda í viðkomandi aðildarríki til þess. Þá er lagt til að framkvæmdastjórnin fái heimild til að gefa út ítarlegar leiðbeiningar um mat á fjárfestingum sem taldar eru hafa í för með sér áhættu fyrir allsherjarreglu og efnahagslegt öryggi ESB.

Í öðru lagi leggur Evrópuþingið m.a. til að bætt verði við geirum sem séu undirorpnir fjárfestingarýni. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar gerir ráð fyrir að skyldubundin rýni nái í fyrsta lagi til fjárfestinga sem geta haft neikvæð áhrif á verkefni og samstarfsáætlanir sem varða brýna hagsmuni ESB og í öðru lagi til fjárfestinga í strategískri tækni, þ.e. hálfleiðurum, gervigreind, skammtatækni, líftækni, tækni sem varðar tengjanleika, leiðsögukerfa og stafrænnar tækni, þróaðrar skynjaratækni, geim- og eldflaugatækni, orkutækni, vélmenna- og sjálfvirknitækni, þróaðra efna og þróaðrar framleiðslu og endurvinnslu. Evrópuþingið leggur til að við listann bætist fjárfestingar í flutningageiranum (loftferðir, lestir, vélknúin ökutæki og siglingar), í margmiðlunariðnaði, kosningakerfum, mikilvægum hráefnaiðnaði (þ.m.t. jarðvinnslu, hreinsun, endurvinnslu og geymslu) og fjárfestingar á landi sem nýtt er til landbúnaðar. 

Í þriðja lagi leggur Evrópuþingið til að rýni á stofnun fyrirtækja frá grunni (e. Green field investments) verði skyldubundin ólíkt því sem kveðið er á um í tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Þannig verði skylt að rýna slíkar fjárfestingar þegar þær varða skyldubundna geira eða varða svonefnda viðkvæma fjárfesta og eru 250 milljón evra virði eða meira.

Næstu skref í löggjafarferli ESB og hagsmunir Íslands

Ráðherraráð ESB á enn eftir að móta afstöðu til málsins en þegar sú afstaða liggur fyrir munu þríhliða viðræður Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um endanlegt efni málsins fara fram.

Fyrirfram er talið ólíklegt að breytingartillögur Evrópuþingsins hljóti brautargengi í framangreindum þríhliða viðræðum í óbreyttri mynd. Mörg aðildarríki vilja takmarka valdheimildir framkvæmdastjórnarinnar og tryggja að fjárfestingarýni fari fram í aðildarríkjunum sjálfum þegar um er að ræða fjárfestingar sem taldar eru varða þjóðaröryggi. Eins má búast við að reynt verði að ná fram málamiðlun um styttri lista yfir skyldubundna rýni en mörg aðildarríki vilja aukinn sveigjanleika og viðhalda forræði yfir rýni á erlendum fjárfestingum.

EES/EFTA-ríkin hafa ekki lokið mati á því hvort og þá að hvaða marki væntanleg reglugerð teljist falla undir EES-samninginn og mun niðurstaða þar um ekki liggja fyrir fyrr en að loknu löggjafarferlinu innan ESB þegar endanlegt efni nýrrar reglugerðar liggur fyrir. Við þá skoðun er mikilvægt að leita leiða til að tryggja að fjárfestar hvarvetna af EES-svæðinu búi við sömu reglur og verði ekki mismunað. Eins er mikilvægt að koma í veg fyrir að til verði viðskiptahindranir og aukinn stjórnsýslukostnaður á þeim grundvelli að litið sé á fjárfestingaraðila frá EES/EFTA-ríkjunum sem aðila frá þriðja ríki er kemur fjárfestingum á EES-svæðinu. Þá er álitið mikilvægt að tryggja náið samstarf við ESB á sviði fjárfestingarýni til að tryggja heilindi innri markaðarins. 

Frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila

Gildandi ákvæði í íslenskri löggjöf um rýni á fjárfestingum erlendra aðila eru að stofni til frá árinu 1991, sbr. lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Á hinn bóginn hefur nú um nokkurt skeið verið unnið að gerð frumvarps um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu til að mæta lagaþróun sem orðið hefur á þessu sviði í nágrannalöndunum og í ESB og var frumvarp þess efnis lagt fram á Alþingi á 154. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Þá hefur atvinnuvegaráðherra nú boðað að slíkt endurskoðað frumvarp verði lagt fram að nýju á haustþingi 2025 en áform um þá lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 7. maí sl. og er umsagnarfrestur til 5. júní nk.

Opið samráð um mögulegar mótvægisaðgerðir ESB vegna tollastefnu Bandaríkjanna

Framkvæmdastjórn ESB efndi í síðustu viku til opins samráðs um lista yfir innflutningsvörur frá Bandaríkjunum (BNA) sem mögulegar mótvægisaðgerðir af hálfu ESB gætu beinst að náist ekki viðunandi niðurstaða í yfirstandandi samningaviðræðum við BNA um afnám nýrra tolla sem BNA hefur þegar lagt á eða boðað að lagðir verði á, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 4. apríl sl. um viðbrögð ESB við gagnkvæmistollum BNA. Jafnframt var birtur listi, til samráðs, um vörur þar sem til greina kemur að kveða á um útflutningstakmarkanir til BNA. Þá hefur framkvæmastjórnin einnig tilkynnt að hún hafi hafið undirbúning að málsókn gegn BNA fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni vegna tollamálanna.

Sjá nánar um framangreint í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.

Viðskiptasamband ESB og BNA var m.a. til umfjöllunar á fundi ráðherraráðs ESB í vikunni þar sem viðskiptaráðherrar ESB-ríkjanna fengu skýrslu um stöðu og framgang framangreindra viðræðna. Sjá nánar um niðurstöður fundarins hér. Þá bárust fréttir af því í vikunni að Bandaríkjastjórn hefði sent framkvæmdastjórn ESB bréf þar sem greina megi jákvæðan tón og samningsvilja.

Samkomulag um ráðstafanir til að draga úr örplastmengun

Þann 8. apríl sl. náðist samkomulag í viðræðum milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu að nýrri reglugerð um að koma í veg fyrir að plastkögglar, þ.e. hráefni sem notað er til að framleiða plastvörur, berist út í umhverfið.

Tillagan er hluti af aðgerðaáætlun ESB um núllmengun (e. Zero pollution action plan), sem fjallað hefur verið um í Vaktinni við ýmis tilefni.

Með tillögunni og samkomulaginu sem nú liggur fyrir er lögð megin áhersla á að draga úr mengun af völdum örplasts með því að bæta meðhöndlun á plastkögglum í allri virðiskeðjunni, bæði á landi og á sjó. Um er að ræða mikilvægt skref í umhverfisvernd.

Megináherslur reglugerðarinnar eru á forvarnir og hreinsun, áætlanir vegna áhættustjórnunar, einföldun, samræmi, vottun og eftirlit og síðast en ekki síst að fylgt verði leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um sjóflutninga á plastkögglum.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Sjá nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB.

Samræmdar evrópskar prófgráður

Ráðherraráð ESB samþykkti 12. maí sl. tillögu framkvæmdastjórnar ESB að nýjum tilmælum, og ályktun, sem ætlað er að greiða leiðina fyrir þróun, upptöku og innleiðingu á samræmdum evrópskum prófgráðum (Joint European Degree).

Tillögurnar hafa það að markmiði að auka gæði menntunar innan ESB og alþjóðlegrar samkeppnishæfni evrópskra háskóla með veitingu samræmdra prófgráða þvert á landamæri innan aðildarríkja ESB.

Einföldun regluverks á sviði landbúnaðarmála

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni umfangsmikinn aðgerðapakka um einföldun regluverks í landbúnaði og á lagalegri umgjörð almennu landbúnaðarstefnu ESB (e. Common Agricultural Policy - CAP). Þessi aðgerðarpakki er hluti af viðamiklum áformum framkvæmdastjórnarinnar um einföldun regluverks á hinum ýmsu sviðum, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 7. mars og 2. maí sl. Aðgerðarpakkanum er ætlað að koma til móts við kröfur bænda sem hafa mótmælt kjörum sínum víðsvegar um Evrópu á umliðnum árum vegna aukins skrifræðis og íþyngjandi krafna í umhverfismálum. Aðgerðirnar lúta einkum af því að draga úr skrifræði, einfalda eftirlit, efla viðbrögð við áföllum, t.d. vegna þurrka og flóða, og auka samkeppnishæfni bænda. Áætlað er að aðgerðirnar geti haft í för með sér 1,6 milljarða evra sparnað fyrir bændastéttina á ársgrundvelli og sparað stjórnvöldum einstakra ríkja allt að 210 milljónir evra á ári. Tillögurnar eru einnig hluti af víðtækari stefnumörkunaráætlun sem nefnd er leiðarvísir fyrir aukna samkeppnishæfni (e. Competitiveness Compass) og er m.a. ætlað að styðja við samkeppnishæfni, seiglu og stafræn umskipti í landbúnaði og laða til starfa nýja kynslóð ungra bænda og hvetja bændur til að stunda lífræna framleiðslu.

Helstu aðgerðir snúa m.a. að:

  1. Einföldun á styrkjakerfi fyrir lítil bú: Árleg hámarks greiðsla sem eingöngu er ætluð smáum búum hækkar úr 1.250 evrum í 2.500 evrur. Lítil bú verða undanþegin tilteknum umhverfiskröfum en eiga þess í stað kost á grænum umbunargreiðslum ef þau sýna fram á umhverfisvæna framleiðslu (e. eco-schemes).
  2. Einföldun umhverfiskrafna og eftirlits: Til dæmis verða lífrænt vottuð bú sjálfkrafa talin uppfylla tilteknar umhverfiskröfur án þess að frekara eftirlit komi til. Bændur geta átt kost á umbunargreiðslum fyrir verndun votlendis og mýrlendis. Eftirlit í gegnum gervihnetti verður innleitt og aðeins farið í eina úttektarheimsókn á hvert bú á ári.
  3. Einföldun á viðbragðskerfi vegna áfalla: Nýtt styrkjaúrræði fyrir bændur sem verða fyrir áföllum vegna náttúruhamfara eða dýrasjúkdóma verður innleitt og önnur úrræði, innan sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar, vegna áhættuþátta í landbúnaði gerð sveigjanlegri. Þá verður aðildarríkjum gert auðveldara að aðlaga sínar eigin áætlanir um viðbrögð við áföllum að viðbragðsrammanum innan sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar.
  4. Nýjum styrkjamöguleikum vegna stafrænna umskipta og annarra fjárfestinga til að efla samkeppnishæfni: Smærri býli munu t.d. geta sótt um allt að 50 þúsund evra fjárhagsaðstoð vegna fjárfestinga sem ætlað er að auka samkeppnishæfni þeirra.

Aðgerðirnar byggja á nýrri stefnu framkvæmdastjórnarinnar um framtíðarsýn í landbúnaði og matvælaframleiðslu sem kynnt var 19. febrúar sl. og fjallað var um í Vaktinni 7. mars sl. en sú stefna byggði aftur á skýrslu sem unnin var að beiðni  framkvæmdastjórnar ESB og kom út í september í fyrra um framtíð landbúnaðar í ESB (e. Strategic dialogue on the future of the EU agriculture) en fjallað var um þá skýrslu í Vaktinni 11. október sl. 

Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Áætlun um að hætta öllum orkuinnflutningi frá Rússlandi

Framkvæmdastjórn ESB sendi þann 6. maí sl. frá sér orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB þar sem sett er fram tímasett áætlun, eða vegvísir, um hvernig ná megi því markmiði að hætta alfarið að nota rússneska orku, þ. á m. gas, olíu og kjarnorku, samfara því að tryggt sé stöðugt orkuframboð og orkuverð (e. Roadmap towards ending Russian energy imports).

Þrátt fyrir að umtalsverður árangur hafi náðst í því að gera ESB óháð orkuinnflutningi frá Rússlandi, m.a. á grundvelli REPowerEU-áætlunarinnar og með beitingu viðskiptaþvinganna gagnvart Rússlandi þá jókst innflutningur á rússnesku gasi til ESB eigi að síður árið 2024. Því er talin þörf á enn samhæfðari aðgerðum til að binda enda á innflutning á orku frá Rússlandi, enda er álitið að slíkur innflutningur feli í sér beina öryggisógn við ESB.

Gert er ráð fyrir að vegvísinum verði fylgt eftir með nýjum löggjafartillögum sem kynntar verða fljótlega.

Vegvísirinn er vitaskuld þáttur í viðbrögðum ESB við ólögmætu innrásarstríði Rússlands í Úkraínu en hann hefur jafnframt það markmið að hraða útbreiðslu endurnýjanlegrar orku og orkusparandi aðgerða og styður þannig einnig við að ESB nái markmiðum sínum í loftlagsmálum.

Óformlegur fundur orkumálaráðherra

Óformlegur fundur orkumálaráðherra ESB með þátttöku orkumálaráðherra EFTA-ríkjanna, Úkraínu, Moldóvu og Bretlands var haldinn í Varsjá í Póllandi 13. maí sl. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sótti fundinn fyrir hönd Íslands.

Efling orkuöryggis og bættur aðgangur að hreinni tækni, ástandið í Úkraínu og Moldóvu og enduruppbygging og styrking orkuinnviða í löndunum og undirbúningur fyrir næsta vetur voru aðalefni fundarins. Jafnframt gerðu fulltrúar Spánar og Portúgal grein fyrir stöðu rannsóknar á orsökum hins víðtæka rafmagnsleysis sem varð í löndunum tveimur fyrir rúmum tveimur vikum og kom fram í máli þeirra að unnið væri að gerð skýrslu um málið og að aðildarríki ESB yrðu upplýst um niðurstöður hennar þegar þar að kæmi.

Á fundinum kynnti Dan Jørgensen, framkvæmdastjóri orkumála, nýja áætlun framkvæmdastjórnarinnar um að hætta öllum orkuinnflutningi frá Rússlandi en fjallað er um þá áætlun hér að ofan í Vaktinni. Í máli Jørgensen kom m.a. fram að ESB væri í viðkvæmri stöðu er kæmi að orkuöflun og að vinna þyrfti að því að styrkja þá stöðu.

Í máli Paulina Hennig-Kloska, umhverfis- og loftslagsráðherra Póllands, sem fer jafnframt með orkumál, kom fram að fjárfesting í nýrri hreinni tækni á sviði orkumála væri hvati til þróunar og framfara í iðnaði og um leið fjárfesting í öryggi. Stuðningur ESB við þá þróun myndi gagnast hagkerfinu, íbúum og umhverfinu og draga úr ósjálfstæði ESB gagnvart innflutningi á orku, m.a. frá Rússlandi.

Í máli sínu lagði Jóhann Páll umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra áherslu á  að Ísland standi með Úkraínu og Moldóvu. Hann benti á að fjölbreytni í orkugjöfum og kerfi sem eru óháð hvert öðru geti lagt grunninn að bættu orkuöryggi og vakti hann athygli á því hvernig jarðhiti geti nýst í þeim efnum. Ísland býr að mikilli þekkingu og reynslu á sviði jarðhita, m.a. varðandi nýtingu lághitasvæða, og það sé eindreginn vilji Íslands að deila þekkingu og reynslu með Úkraínu og Moldóvu, Sjá nánar um þátttöku ráðherra á fundinum í fréttatilkynningu umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins.

Auk þess að sitja ráðherrafundinn tók Jóhann Páll þátt í eftirfarandi tengdum viðburðum og fundum:

  • Pólsk-norrænni viðskiptaráðstefnu
  • Óformlegum fundi norrænna orkumálaráðherra
  • Tvíhliða fundi orkumálaráðherra Íslands og Úkraínu
  • Tvíhliða fundi með framkvæmdastjóra Alþjóðaorkustofnunarinnar (IEA) og
  • Tvíhliða fundi orkumálaráðherra Íslands og Noregs

75 ára afmæli Schuman-yfirlýsingarinnar – Evrópudagurinn

Evrópudagurinn (e. Europe day) er haldinn hátíðlegur á vettvangi ESB 9. maí ár hvert en þann dag árið 1950, eða rétt rúmum fimm árum frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar, birti þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, Robert Schuman, yfirlýsingu sem við hann er kennd þar sem m.a. var lagt til að stofnað yrði til Kola- og stálbandalags Evrópu sem aftur lagði grunninn að Evrópusambandinu.

Þann 9. maí sl. sendu forystumenn ESB, þ.e. forseti Evrópuþingsins, forseti leiðtogaráðs ESB og forseti framkvæmdastjórnar ESB, frá sér sameiginlega yfirlýsingu í tilefni dagsins.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta