Hoppa yfir valmynd

Ritstjórnarstefna

Ritstjórnarstefna Brussel-vaktarinnar

Inngangur

Brussel-vaktin (Vaktin) er fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu (ESB) sem gefið er út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun og löggjafarstarfsemi á vettvangi ESB er viðkemur EES-samningnum.

Vinnsla Vaktarinnar er samstarfsverkefni fulltrúa ráðuneyta sem starfa í sendiráði Íslands í Brussel og er ritstjórn í höndum fulltrúa forsætisráðuneytis. Ábyrgðarmaður fyrir útgáfunni er sendiherra Íslands í Brussel.

Markmið Vaktarinnar

Markmið með útgáfu Vaktarinnar er að miðla upplýsingum til Íslands um stefnumörkun ESB er viðkemur EES-samningnum með sérstakri áherslu á löggjafartillögur framkvæmdastjórnar ESB, sem taldar eru EES-tækar, mótun þeirra á undirbúningsstigi og meðferð þeirra í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB, þannig að íslensk stjórnvöld, alþingismenn, hagsmunaaðilar, fjölmiðlar og aðrir lesendur Vaktarinnar megi vera þess meðvitaðir hvers sé að vænta úr ranni ESB á hverjum tíma og hafi eftir atvikum möguleika, ef hagsmunir Íslands gefa tilefni til, til að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum við undirbúning og meðferð slíkra tillagna innan stofnana ESB og við undirbúning og upptöku þeirra í EES-samninginn.

Markmið Vaktarinnar er jafnframt að styðja við innra starf sendiráðsins við vöktun mála og samfellda og virka hagsmunagæslu á öllum málefnasviðum innan ESB sem varðað geta EES-samninginn og innri markað Evrópska efnahagssvæðisins, Schengen-samstarfið eða stöðu Íslands gagnvart ESB með öðrum hætti.

Efnisflokkar Vaktarinnar

Helstu efnisflokkar sem fjallað er um í Vaktinni eru eftirfarandi:

  • Starfsáætlanir framkvæmdastjórnar ESB
  • Starfsáætlanir formennskuríkja í ráðherraráði ESB og þriggja ríkja áætlanir
  • Forgangslisti ríkisstjórnar Íslands vegna hagsmunagæslu gagnvart ESB
  • Löggjafartillögur framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB
  • Framkvæmdareglugerðir og önnur afleidd löggjöf
  • Orðsendingar framkvæmdastjórnarinnar
  • Samstarfsáætlanir ESB sem Ísland tekur þátt í
  • Þingsályktanir Evrópuþingsins
  • Fundir leiðtogaráðs ESB
  • Ráðherrafundir, bæði á vettvangi ráðherraráðs ESB og óformlegir fundir
  • Skýrslur stofnanna ESB
  • Fundir EES-ráðsins og fundir og aðrir viðburðir á vegum EFTA eftir atvikum
  •  Heimsóknir og viðburðir 

Nánar um einstaka efnisflokka

  • Starfsáætlanir framkvæmdastjórnar ESB og forgangsröðun mála.
    Framkvæmdastjórn ESB birtir í upphafi hvers skipunartímabils starfsáætlun þar sem megin stefnumál stjórnarinnar fyrir komandi tímabil í heild sinni eru kynnt. Því til viðbótar birtir framkvæmdastjórnin sérstaka starfsáætlun fyrir hvert ár sem felur í sér nánari útfærslu fyrrgreindrar áætlunar. Þessar starfsáætlanir leggja grunninn að stefnumótun og löggjafarstarfi ESB á hverjum tíma.
    • Í Vaktinni skal greina frá helstu stefnumótun og áherslumálum sem sett eru fram í starfsáætlunum framkvæmdastjórnarinnar.

  • Starfsáætlanir formennskuríkis í ráðherraráði ESB og þriggja ríkja áætlanir
    Formennska í ráðherraráði ESB gengur á milli aðildarríkja samkvæmt fyrirfram ákveðinni röð og er formennskutímabilið sex mánuðir. Í upphafi hvers tímabils gefur formennskuríkið út starfsáætlun. Samhliða er svonefnd þriggja ríkja áætlun birt (e. The Trio Programme) en það er sameiginleg áætlun þess ríkis sem er að taka við formennsku og þeirra tveggja ríkja sem á undan komu og er tilgangur þeirrar áætlunar er að skapa samfellu í áætlanagerð ráðherraráðsins. Hlutverk formennskuríkis á hverjum tíma er að leiða starf og stjórna fundum í öllum deildum ráðherraráðs ESB. Þá stýrir formennskuríkið einnig samningaviðræðum við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB þegar ná þarf sameiginlegri niðurstöðu um löggjafarmálefni og önnur málefni. Umtalsvert áhrifavald fylgir formennskunni á hverjum tíma enda geta áherslur formennskuríkis haft úrslitaáhrif um það hvort tiltekin mál nái fram að ganga eða ekki.
    • Í Vaktinni skal greina frá helstu stefnumótun og áherslumálum sem sett eru fram í formennskuáætlunum og í þriggja ríkja áætlunum, eftir atvikum.

  • Forgangslisti ríkisstjórnar Íslands vegna hagsmunagæslu
    Ríkisstjórn Íslands samþykktir með reglulegu millibili forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Við gerð forgangslista er eðli málsins samkvæmt horft til starfsáætlana ESB samkvæmt framangreindu og þá til þess hverra mála, einkum löggjafar, megi vænta úr ranni ESB.
    • Í Vaktinni skal greint frá efni forgangslistans og þau sett í samhengi við áætlanir ESB eftir atvikum.

  • Löggjafartillögur framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins og ráðsins
    • Stefnt skal að því að fjalla um löggjafartillögur sem lagðar eru fyrir Evrópuþingið og ráðherraráð ESB og merktar eru EES-tækar. Að jafnaði skal  stefnt að því birta umfjöllun um hver mál í þremur umferðum:
      • Á undirbúningsstigi – þegar og ef áform um lagasetningu eru birt í samráðsgátt ESB „have your say“.
      • Á tillögustigi – þegar formleg löggjafartillaga er lögð fyrir Evrópuþingið og ráðherraráðið að hálfu framkvæmdastjórnarinnar.
      • Á lokastigi – þegar samkomulag um efni gerðarinnar næst í þríhliðaviðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB.
    • Í einstaka tilvikum getur verið tilefni til að birta umfjöllun um framkvæmdareglugerðir og aðra afleidda löggjöf, þ.e. reglur sem framkvæmdastjórnin setur með stoð í lögum ESB sem Evrópuþingið og ráðherraráð ESB hafa áður samþykkt.

  • Orðsendingar framkvæmdastjórnarinnar.
    Stefnumótun og stefnuskjöl framkvæmdastjórnarinnar eru oftast sett fram í formi orðsendinga (e. communication) sem venjulega er beint til Evrópuþingsins, leiðtogaráðs ESB, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar og stundum einnig til sjálfstæðra stjórnvalda ESB eins t.d. Seðlabanka Evrópu. Í orðsendingum er oft að finna áform um framlagningu löggjafartillagna en algengt er einnig að orðsendingar séu lagðar fram samhliða löggjafartillögum.
    • Meta þarf í hverju tilviki hvort tilefni sé til að fjalla sérstaklega um orðsendingu í Vaktinni. Í mörgum tilvikum er hægt að spinna umfjöllun um orðsendingu saman við umfjöllun um löggjafartillögu og fer jafnan vel á því.

  • Þingsályktanir Evrópuþingsins
    Þingsályktanir eru leið Evrópuþingsins til að koma á framfæri sjónarmiðum og áherslum þingsins til einstakra mála og málaflokka á vettvangi ESB og eru þær m.a. notaðar til að bregðast við orðsendingum frá framkvæmdastjórninni. Á framkvæmdastjórninni hvílir lýðræðisleg krafa til að taka sérstakt tillit til sjónarmiða þingsins samkvæmt samþykktum þingsályktunum.
    • Meta þarf í hverju tilviki hvort tilefni sé til að fjalla sérstaklega um þingsályktun í Vaktinni. Í mörgum tilvikum er hægt að spinna umfjöllun um þingsályktun saman við umfjöllun um löggjafartillögu eða ráðherrafund og fer jafnan vel á því.

  • Fundir leiðtogaráðs ESB
    • Í Vaktinni skal greina frá fundum leiðtogaráðsins og helstu umfjöllunarefnum hverju sinni.

  • Ráðherrafundir, bæði á vettvangi ráðherraráðs ESB og óformlegir fundir.
    • Meta skal í hverju tilviki hvort tilefni sé til að fjalla sérstaklega um ráðherrafundi, bæði fundi á vettvangi ráðherraráðs ESB og óformlega fundi sem skipulagðir eru af formennskuríkinu hverju sinni. Taki íslenskur ráðherra þátt í óformlegum fundi skal þó jafnan fjalla um fundinn.

  • Skýrslur stofnana ESB
    • Meta þarf í hverju tilviki hvort tilefni sé til að fjalla sérstaklega um útgefnar skýrslur. Í mörgum tilvikum er hægt að spinna umfjöllun um skýrslu saman við umfjöllun um löggjafartillögu eða ráðherrafund og fer jafnan vel á því.

  • Fjalla skal um fundi EES-ráðsins og aðra fundi og viðburði í tengslum við rekstur EES-samningsins eftir því sem tiltefni þykir til

  • Heimsóknir til sendiráðsins og viðburðir
    • Meta þarf í hverju tilviki hvort tilefni sé til að fjalla um heimsóknir til sendiráðsins og aðra viðburði. Jafnan skal þó fjalla um heimsóknir íslenskra ráðherra og ráðuneytisstjóra.

Almennt um efnistök

Leitast skal við að umfjöllun um málefni sé í senn efnisrík og hnitmiðuð þannig að umfjöllun gefi greinargóða mynd af því máli sem til umfjöllunar er, stöðu þess og næstu skref, ef við á.  Lengd umfjöllunar hverju sinni ræðst af umfjöllunarefninu. Gæta skal vel að því að fullyrðingar um staðreyndir séu réttar. Þegar fjallað er um mál sem áður hefur verið fjallað um í Vaktinni skal forðast endurtekningar en þess í stað skal vísa til fyrri umfjöllunar með innfelldum hlekk. Með sama hætti skal ávallt vísa til mikilvægustu gagna sem umfjöllun er byggð á með innfelldum hlekk. Leitast skal við að setja umfjöllun fram á vandaðri íslensku þar sem gætt er að málfari og stafsetningu, sbr. málstefnu Stjórnarráðs Íslands. Við þýðingu á enskum heitum og lykilhugtökum skal meta hvort tilefni sé til að hafa enska heitið eða hugtakið með innan sviga til að forðast misskilning.

Hlutverk fulltrúa ráðuneyta

Vaktin er samstarfsverkefni fulltrúa ráðuneyta í sendiráðinu þar sem gert er ráð fyrir að hver fulltrúi vakti þau málefnasvið, sem heyra undir það ráðuneyti sem viðkomandi er fulltrúi fyrir, m.a. með áskrift af viðeigandi fréttaefni hjá stofnunum ESB, þar á meðal með áskrift af tilkynningum frá samráðsgátt ESB (e. have your say) og meti í samráði við ritstjóra Vaktarinnar, að teknu tilliti til ritstjórnarstefnu þessarar, hvort og þá hvenær tilefni er til umfjöllunar, en almennt skal stefnt að því umfjallanir um mál séu birtar við fyrstu útgáfu Vaktarinnar eftir að mál hefur verið gert opinbert af hálfu ESB. Sé talið tilefni til umfjöllunar er það hlutverk viðkomandi fulltrúa að taka saman fyrstu drög að umfjöllun sem senda skal ritstjóra til yfirferðar tímalega fyrir fyrirhugaða útgáfu Vaktarinnar.

Hlutverk ritstjóra

Ritstjóri stýrir efnistökum í Vaktinni, undir yfirstjórn sendiherra. Hann skal leitast við að hafa heildaryfirsýn yfir áætlanir og stefnur ESB og innleiðingu þeirra og vekja, eftir atvikum, athygli fulltrúa ráðuneyta á málefnum sem tilefni er til að taka til umfjöllunar. Ritstjóri fer efnislega yfir drög að umfjöllunum sem berast frá fulltrúum ráðuneyta og gætir að samræmi í framsetningu og málfari. Ritstjóri annast jafnframt frumritun efnis um málefni sem falla undir málefnasvið forsætisráðuneytisins og um málefni sem falla þvert á ráðuneyti, svo sem um starfsáætlanir ESB, fundi leiðtogaráðsins, forgangslista íslenskra stjórnvalda og önnur tilfallandi skrif.

 

Staðfest af sendiherra

 15. september 2023 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum