Stefna um vísindi og nýsköpun gefin út
Stefna stjórnvalda um vísindi, tækniþróun og nýsköpun til ársins 2035 hefur verið gefin út. Hana má nálgast hér að neðan.
Meðal þess sem kemur fram í stefnunni er að árið 2035 verði „öflugt og samkeppnishæft nýsköpunar- og rannsóknaumhverfi á Íslandi þar sem fjölbreyttur hópur hæfileikaríks fólks vinnur saman að öflun, miðlun og hagnýtingu þekkingar.“ Jafnframt skuli að því stefnt að útgjöld til rannsókna og þróunar verði 3,5% af vergri landsframleiðslu árið 2035. Þar er átt við útgjöld samfélagsins alls, ekki aðeins framlag hins opinbera.
Meginstoðir framtíðarsýnarinnar eru þrjár: öflugur mannauður, traust langtímafjármögnun og sterkir innviðir og samstarf. Markmiðið er að vísindi og nýsköpun, fremur en nokkru sinni fyrr, verði helstu drifkraftar sterks og áfallaþolins íslensks samfélags og hagkerfis, fyrir tilstuðlan opinbers og samfélagslegs stuðnings. Traust stefnumótun og langtímafjárfesting í vísindum og nýsköpun stuðli þannig að blómlegu samfélagi, sem hefur burði til að vera í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði.
Stefnan hvílir á grunni tillagna sem vísinda- og nýsköpunarráð kynnti í lok síðasta árs en tillögurnar byggðu m.a. á umsögnum sem borist höfðu í samráðsgátt stjórnvalda.
Hér má nálgast Stefnu um vísindi, tækniþróun og nýsköpun til 2035. Aðgerðaáætlun stefnunnar til næstu tveggja ára verður birt í haust.
Nánar um Vísinda- og nýsköpunarráð:
Vísinda- og nýsköpunarráð starfar sjálfstætt skv. lögum nr. 137/2022.
Ráðið fjallar um stöðu vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi með tilvísun til alþjóðlegrar þróunar í stefnumótun á sviðinu. Vísinda- og nýsköpunarráð er auk þess ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og stjórnvöldum til ráðgjafar. Meðal verkefna ráðsins er að gera tillögur að framtíðarsýn og meginmarkmið stefnu stjórnvalda og setja fram rökstuddar tillögur að umbótum með tilvísun í alþjóðlega þróun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar.