Aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna á breiðum grunni – stöðutaka
Ný stöðutaka aðgerðahóps stjórnvalda gegn ofbeldi meðal og gegn börnum sýnir nauðsyn áframhaldandi markvissra aðgerða til að mæta þörfum barna í mestum vanda.
Aðgerðunum er ætlað að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, auka forvarnarstarf og leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi. Fyrstu aðgerðirnar voru kynntar í júní 2024 og í september sama ár var ákveðið að fjölga aðgerðum og auka fjármagn til þeirra.
Aðgerðirnar eru hafnar og hafa áhrif þeirra komið fram í eflingu úrræða, aukinni samfélagsumræðu og vitund starfsfólks sem starfar með börnum. Til þess að stuðla að varanlegum árangri þarf að halda áfram markvissri innleiðingu sértækra úrræða til að stytta biðlista, efla skráningu og samræmingu gagna og þróa áfram þverfaglegt svæðisbundið samstarf. Aðgerðirnar verða að ná bæði til barna sem verða fyrir ofbeldi og til þeirra sem beita því.
Í skýrslunni kemur fram að öryggistilfinning barna er almennt sterk, en dregst saman hjá þeim sem búa við erfiða fjárhagsstöðu eða eru með erlendan bakgrunn. Drengir upplifa sig öruggari en stúlkur. Tilkynningum til barnaverndar fjölgar áfram, sérstaklega vegna áhættuhegðunar barna. Mikil aukning er í tilkynningum vegna vímuefnaneyslu barna og vegna ofbeldis sem börn beita sjálf. Endurteknar tilkynningar til barnaverndarþjónustu og lögreglu eru stærra hlutfall heildarmála. Fjöldi ofbeldisbrotamála barna skráð af lögreglu hefur aukist frá 2014 og fleiri yngri börn (10–12 ára) koma nú við sögu. Þá hefur ítrekunartíðni brota barna tvöfaldast frá árinu 2007. Drengir eru í miklum meirihluta gerenda í málum sem tilkynnt eru til lögreglu, en hlutfall stúlkna hefur hækkað og ekki verið hærra frá árinu 2007. Börn með erlendan bakgrunn eru einnig oftar en áður skráð sem grunuð í brotum í samræmi við breytta samsetningu þjóðarinnar.
Þessi staða hefur leitt til mikils álags á barnaverndarkerfi þar sem sértæk úrræði og samhæfing milli kerfa hafa ekki haldið í við þessa þróun. Alvarlegt áfall á borð við brunann á Stuðlum samhliða myglu á meðferðarheimili Barna- og fjölskyldustofu fyrir drengi hefur dregið enn frekar úr getu kerfisins til að bregðast við vandanum. Halda þarf áfram að samþætta betur þjónustu fyrir börn sem beita og/eða búa við ofbeldi og tryggja þeim þjónustu við hæfi svo sem málstjóra, stuðningsteymi og stuðningsáætlun á grundvelli farsældar- og barnaverndarlaga með snemmtæka íhlutun að leiðarljósi.
Í stöðutökunni kemur fram að alls eru nú 23 börn á bið eftir MST-meðferð, 24 börn bíða eftir þjónustu í Barnahúsi vegna alvarlegra mála og 32 börn bíða eftir fóstri. Ný úrræði á borð við meðferðarheimili Blönduhlíðar á Vogi og FM-HAM meðferð fyrir börn sem sætt hafa ofbeldi innan fjölskyldna hafa verið tekin í notkun.
Athygli vekur að þrátt fyrir fjölgun tilkynninga er ekki að sjá verulega fjölgun barna á biðlista, sbr. að ekki er bið eftir plássi á Bjargey, meðferðarheimili fyrir stúlkur. Aukið fjármagn til að koma í veg fyrir sumarlokanir á meðferðarúrræðum Barna- og fjölskyldustofu er mikilvægt skref í rétta átt að mati aðgerðahópsins.
Næsta stöðutaka verður í september 2025.