Sótt fram á hinsegin málefnasviði
Íslendingar fagna fjölbreytileikanum og taka undir með hinsegin samfélaginu á Íslandi um að Samstaða skapi samfélag í Gleðigöngu Hinsegin daga í miðborg Reykjavíkur á laugardag.
Ísland skipar sér á bekk með forystuþjóðum á sviði hinsegin réttinda í heiminum. Íslendingar eru í fyrsta sæti á Tgue réttindakorti trans fólks í Evrópu og í þriðja sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, réttindasamtaka hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu.
Ný aðgerðaráætlun á sviði hinsegin mála
Þrátt fyrir mikilvæg skref sem sem stigin hafa verið skortir á að hinsegin fólk búi við sömu lagalegu réttindi og aðrir hópar í samfélaginu. Í dómsmálaráðuneytinu er nú unnið að aðgerðaáætlun á sviði hinsegin mála þar sem meðal annars er horft til þess að jafna foreldrarétt sam- og gagnkynja para og afnema bann við blóðgjöf karla sem stunda kynlíf með öðrum körlum (MSM).
Krefjandi áskorun felst í því að brúa bilið milli lagalegra réttinda hinsegin fólks og raunverulegra aðstæðna þess í samfélaginu. Rannsóknir sýna að hinsegin fólk verður frekar fyrir fordómum, áreitni og mismunun en aðrir. Því kemur ekki á óvart að hinsegin fólk upplifi frekar slæma andlega líðan, einangrun og útilokun í samfélaginu heldur en aðrir.
Við þessum veruleika er brugðist með aðgerðum á sviði rannsókna, fræðslu, vitundarvakningar og stuðnings við hinsegin fólk í nýju aðgerðaáætluninni. Nefna má aðgerðir til stuðnings ungmennum, umbætur í ferli hatursglæpa gegn hinsegin fólki, fræðslu til lögreglu, fulltrúa í sveitarstjórnum, fulltrúa fjölmiðla, starfsfólks sveitarfélaga og heilbrigðisstétta.
Stefnt er að því að ljúka vinnu við aðgerðaáætlunina á haustmánuðum. Aðgerðaáætlunin tekur við af fyrstu aðgerðaáætlun stjórnvalda á sviði hinsegin málefna. Sú aðgerðaáætlun rennur sitt skeið á enda í lok ársins 2025. Hægt er að nálgast upplýsingar um stöðu einstakra aðgerða á vefsvæði ráðuneytisins.